Rafbílaframleiðandinn Tesla hyggst á næstunni opna verslun í húsnæði á Krókhálsi í grennd við Bílaumboðið Öskju og Bílabúð Benna, segir í frétt ViðskiptaMoggans. Þar er meðal annars hægt að kaupa Mercedes Benz og Porsche.

Í janúar síðastliðnum stofnaði Tesla íslenskt eignarhaldsfélag, Tesla Motors Iceland ehf., og staðfesti Norðmaðurinn Even Sandvold Roland, fulltrúi Tesla í Noregi, í frétt Morgunblaðsins í febrúar að fyrirtækið ynni að opnun hér á landi.

Samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans mun Tesla leigja aðstöðu af fasteignafélaginu Krókhálsi 13, sem einnig á eign sem Askja leigir. Er fasteignafélagið í meirihlutaeigu Hjörleifs Þórs Jakobssonar og Hjördísar Ásberg. Þau eru hluthafar í Bílaumboðinu Öskju.