Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, lék lykilhlutverk í að koma á tengslum milli Kerecis og Emerson Collective og mun tengslanet hans verða gríðarlega mikilvægt fyrir sókn Kerecis á erlendum mörkuðum. Þetta segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og stjórnarformaður Kerecis, í samtali við Fréttablaðið.

Fréttablaðið greindi frá því að Ólafur tæki sæti í stjórn Kerecis á hlutahafafundi sem hefur verið boðaður fimmtudaginn 1. ágúst næstkomandi. Félagið framleiðir afurðir sem byggðar eru á affrumuðu þorskroði sem inniheldur fjölómettaðar fitusýrur. Afurðirnar hafa jákvæð áhrif á frumuvöxt og eru seldar til meðhöndlunar á þrálátum sárum og brunasárum.

„Ólafur Ragnar býr að mikilli reynslu og tengslaneti um allan heim, sérstaklega í nýmarkaðslöndum þar sem Kerecis hyggst leggja aukna áherslu á markaðssetningu á næstu árum.“, segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og stjórnarformaður Kerecis.

„Ólafur er í samstarfi við Emerson Collective um sjálfbæra nýtingu á auðlindum í Kyrrahafinu og víðar en sjálfbær fullnýting á sjávarauðlindum er kjarninn í starfsemi Kerecis svo að þetta fer vel saman,“ segir Guðmundur.

Kerecis lauk fyrr á þessu ári fjármögnun fyrir sextán milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega tveggja milljarða króna. Á meðal þeirra sem bættust þá við hluthafahóp Kerecis var Emerson Collective, fyrirtæki Laurene Powell Jobs, ekkju Steve Jobs, stofnanda Apple.

Þá segir Guðmundur að Ólafur hafi alist upp á Ísafirði og hafi áhuga á að tengjast heimabæ sínum betur en þar er er Kerecis með höfuðstöðvar sínar og framleiðslu. Guðmundur segist ekki gera ráð fyrir breytingu á hlutverkaskiptingu stjórnar en það komi í ljós eftir hluthafafundinn.

Ólafur hefur í gegnum tíðina setið í fjölmörgum stjórnum innlendra- og erlendra félagasamtaka, en með stjórnarsetu sinni í Kerecis sest hann í fyrsta skipti í stjórn fyrirtækis. Ólafur Ragnar, sem var forseti lýðveldisins á árunum 1996 til 2016, er í dag jafnframt stjórnarformaður hins árlega Arctic Circle-þings.

Kerecis hefur undanfarin þrjú ár hlotið tilnefningu vaxtarprotans sem hraðast vaxandi og annað tveggja hraðast vaxandi fyrirtækja á Íslandi. Samkvæmt fréttum frá Kerecis hefur vöxtur fyrirtækisins einkum verið í Bandaríkjunum og Sviss þar sem Kercis selur sáraroð fyrirtækisins beint til heilbrigðisstofnanna.