Leita þarf átta ár til baka til að finna álíka lágt hlutfall tengifarþega hjá Icelandair Group, segir í frétt Túrista.is Hlutfallið var 45 prósent á þriðja ársfjórðungi en á árunum 2014 til 2017, þegar flugfélagið skilaði metafkomu, var vægi tengifarþega á bilinu 55 til 58 prósent á ársfjórðungnum, segir í fréttinni.

Megin ástæðan er sögð sú að stjórnendur Icelandair hafi að undanförnu lagt höfuðáherslu á ferðamannamarkaðinn til Íslands. Sú stefna hafi að einhverju leyti verið mörkuð áður en WOW air var gjaldþrota í lok mars.

Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Icelandair Group.

Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Icelandair Group, sagði á afkomufundi fyrir fyrsta fjórðung í ár að markaðurinn fyrir tengiflug væri erfiður. „Við erum viljandi, út af krefjandi aðstæðum á Via-markaði, að stýra tekjumynduninni inni á To og From,” sagði hún í apríl.

„Þessi krefjandi samkeppni um farþega á leið á milli Evrópu og Norður-Ameríku hefur því dregið úr högginu sem fall WOW air var fyrir íslenska ferðaþjónustu þar sem Icelandair hefur sett Ísland í forgang,“ segir í fréttinni.