Málefni lífeyrissjóðanna eru fyrirferðarmikil í öllum málum sem snerta efnahag og viðskiptalíf á Íslandi. Gildir þar einu hvort um er að ræða sölu á ríkiseignum, líkt og í tilfelli Íslandsbanka, eða efnahagsleg áföll.

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða segir umræðuna um umsvif og fjárfestingar lífeyrissjóða ekki endilega gefa rétt mynd af tilgangi þeirra og hlutverki. „ Okkur hættir til að horfa á sjóðina sem þennan risastóran valdamikla óvin. Þegar við ættum að horfa til þess hvaða hlutverki þeir raunverulega gegna“.

Þórey segist fagna allri umræðu um sjóðina því þeir varði okkur öll. Það sem gleymist gjarnan í þeirri umræðu sé að sjóðunum beri fyrst og fremst að gæta hagsmuna sinna sjóðsfélaga. Það sé þeirra mikilvægasta viðfangsefni.

Á sama tíma bendir Þórey á að sjóðirnir hafi sjálfir verið að horfa til þess að fá rýmri heimildir til að auka umsvif sín á fleiri mörkuðum en þeim íslenska. Þar hafi stjórnvöld ekki viljað taka jafn stór skref og sjóðirnir telja mikilvægt.

Þórey verður í ítarlegu viðtali við Markaðinn á Hringbraut í kvöld klukkan 19:00