Í október síðastliðnum var tilkynnt að franski fjárfestingasjóðurinn Ardian hefði samið við Símann um kaup á Mílu, sem á og rekur innviði fjarskipta á Íslandi. Andvirði viðskiptanna er 78 milljarðar króna en kaupsamningur kvað á um fyrirvara Samkeppniseftirlitsins.
Eftir átta mánaða yfirlegu greindi Samkeppniseftirlitið svo forsvarsmönnum Ardian frá því í síðustu viku að ekkert gæti orðið af samrunanum ef tiltekin skilyrði, sem lúta að viðskiptasambandi Símans og Mílu, væru ekki uppfyllt.
Ardian tilkynnti Símanum í kjölfarið að umrædd skilyrði væru of íþyngjandi til að salan gæti gengið í gegn og semja þyrfti að nýju um kaupin.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar, segir þessi tíðindi koma sér verulega á óvart. Hann segist vona að rök Samkeppniseftirlitsins séu nægilega sterk til að réttlæta óvissuna sem nú hefur skapast.
„Þetta eru viðskipti sem allir hafa talið til mikilla hagsbóta fyrir neytendur og nauðsynlega uppbyggingu fjarskiptainnviða. Þetta er sérstakt mál og alveg ljóst að rök Samkeppniseftirlitsins fyrir þessum skilyrðum verða að vera mjög sterk.“
Vilhjálmur segist hafa áhyggjur af þeim áhrifum sem málið kunni að hafa á orðspor landsins. „Hér hefur verið lögð gríðarleg vinna í að gera Ísland að álitlegum fjárfestingarkosti. Þessar flækjur geta hæglega grafið undan þeirri vinnu.“
Að sögn Vilhjálms er málið ekki síður sérstakt í ljósi þeirrar umræðu sem átti sér stað í þinginu síðasta vetur.
„Við erum nýbúin að samþykkja lög um fjarskipti þar sem var alger samstaða um þá evrópsku fyrirmynd sem fjárfestingar Ardian byggja á. Þar að auki liggur fyrir samningur á milli Mílu og stjórnvalda um þá þætti sem lúta að þjóðaröryggi. Ég verð að segja að maður áttar sig ekki á hvaða skilyrði þetta eru sem eftirlitið er að setja fram,“ segir Vilhjálmur.
Ardian er einn stærsti fjárfestingasjóður sinnar tegundar í Evrópu. Sérfræðingar á sviði fjarskipta, sem Fréttablaðið ræddi við, telja verulegar líkur á að Ardian hætti við kaupin á Mílu. Annars vegar vegna skilyrða Samkeppniseftirlitsins en einnig vegna ástandsins í Evrópu.
Eftir að stríð braust út í Úkraínu hefur fjárfestingaþörf í mikilvægum innviðum stóraukist um alla álfuna. Við slíkar aðstæður er talið ólíklegt að franski sjóðurinn sé reiðubúinn að ganga á eftir samningum um kaup á fjarskiptainnviðum hér á landi. Forsendur hafi breyst og fjárfestingaþörf stóraukist á mun stærri markaðssvæðum.