Hægt er að byggja upp flutningskerfi Landsnets án þess að það þurfi að leiða til mikilla gjaldskrárhækkana á næstu árum. Til að svo megi verða þarf að dreifa fjárfestingum fyrirtækisins yfir lengri tíma. Öllu mikilvægara er þó að breyta reiknireglu Orkustofnunar um veginn fjármagnskostnað Landsnets, sem myndar grundvöll verðlagningar fyrirtækisins. Þetta er mat Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar.

Í síðustu viku sagði Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, að óráðlegt væri að Landsnet réðist í fjárfestingar upp á 90 milljarða króna á næstu 10 árum til uppbyggingar á flutningskerfi raforku á Íslandi. „ Sumir stórnotendur rafmagns á Íslandi eru þegar við sársaukamörk þegar kemur að raforkukostnaði og það er einsýnt að hækkandi flutningskostnaður myndi þýða minni kaup á raforku. Þá þarf Landsnet að hækka verðskrána, sem myndi enn frekar draga úr eftirspurn. Þarna gæti myndast spírall sem ekki endaði vel,“ sagði Bjarni í síðustu viku.

Hörður telur að Landsnet geti byggt upp flutningskerfið án þess að hækka gjaldskrá: „Gjaldskráin er of há sem stendur. Það sýnir sig auðvitað best í því að arðsemi Landsnets er töluvert meiri en Landsvirkjunar, en það markast af því að tekjumörk Landsnets eru metin of hátt.“

Landsvirkjun sendi Orkustofnun síðast erindi vegna reiknireglu vegins fjármagnskostnaðar Landsnets fyrr á þessu ári. Í erindi Landsvirkjunar kemur fram að álag sem lagt er ofan á áhættulausa vexti í Bandaríkjadölum miðast við tíu ára hlaupandi meðaltal skuldatryggingaálags (CDS) Íslands með tveggja ára töf. „Hið langa meðaltal aftur í tímann gerir það að verkum að áhrifa frá árunum eftir efnahagsáfallið 2008 gætir enn í CDS álaginu. Núverandi notendur flutningskerfisins njóta því ekki góðs af lægra CDS undanfarin ár. Í tilfelli Landsnets þá er langstærstur hluti þeirra lána tekinn á síðustu árum og ber ekki þessi sögulegu CDS meðaltöl,“ segir í erindi Landsvirkjunar til Orkustofnunar.

Landsvirkjun bendir jafnframt á að sé litið til raunverulegs vaxtakostnaðar Landsnets, hafi munurinn á honum og reiknuðum, vegnum fjármagnskostnaði samkvæmt Orkustofnun, legið á bilinu 1,9 til 3,4 prósent á árunum 2011 til 2019. „ Þetta ofmat á vaxtakostnaði Landsnets má rekja til þeirrar aðferðafræði sem er skilgreind í reglugerðinni [...] Þetta svigrúm leiðir til þess að gjaldskrá Landsnets verður óþarflega há, enda er raunverulegur vaxtakostnaður fyrirtækisins mun lægri.“

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku.

Loks er bent á í erindi Landsvirkjunar að verðskrá Landsnets byggi á „á 10 ára gömlum veruleika hrunáranna, í stað þess að taka mið af markaðsaðstæðum eins og þær eru núna.“

Af þessum sökum er ávöxtunarkrafan á eigið fé Landsnets um 9,1 prósent, en til samanburðar bendir Landsvirkjun á að íslenskra ríkið geri 7 til 8 prósenta ávöxtunarkröfu á Landsvirkjunar í Bandaríkjadölum og 6,5 prósenta kröfu í krónum á Íslandsbanka og Landsbanka. Síðastnefndu þrjú fyrirtækin eru þó öll í samkeppnisrekstri, ólíkt Landsneti. „Landsvirkjun telur tímabært að endurskoða forsendur tekjuramma sérleyfishafa [innsk. Landsnets] með það að markmiði að aðlaga þær að þeim veruleika sem íslenskur raforkumarkaður býr við. Að öðru óbreyttu er hætt við að samkeppnishæfni íslenskra orkufyrirtækja verði verulega skert.“


Vilja meiri sveigjanleika


Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir að ávöxtunarkrafa eiginfjár Landsnets sé ákvörðuð af öðrum en fyrirtækinu sjálfu. „Auðvitað höfum við haft okkar skoðanir á þessu, en það er Orkustofnun sem ákveður þetta,“ segir hann. Guðmundur bendir á að uppbygging flutningskerfis raforku sé langtímaverkefni, en jafnframt séu fyrir hendi skýr markmið um að halda gjaldskrá stöðugri. „Á síðustu árum hefur gjaldskrá flutnings til stórnotenda lækkað að raunvirði. Þegar það koma sveiflur eins og við sjáum nú í tenglum við COVID-19, þá er auðvitað tilefni til að skoða hvort eigi að búa þannig um hnútana að Landsnet hafi meira svigrúm til að bregðast við aðstæðum.“ Landsnet geti flutt innheimtu tekna um allt að 10 prósent milli ára til að bregðast við breyttum aðstæðum á mörkuðum, en fram til ársins 2011 var svigrúmið töluvert meira.

Hvað varðar reiknaðan, veginn fjármagnskostnað Landsnets, þá segir Guðmundur að núverandi fyrirkomulag hafi búið til nauðsynlegan stöðugleika í rekstri Landsnets. „Það má auðvitað deila um hvort notkun meðaltals CDS-álags til 10 ára sé besta leiðin, en eftir því sem ég best veit er þessi áætlaði, vegni fjármagnskostnaður sambærilegur við það sem gerist erlendis. Núverandi reikniregla vinnur auðvitað með okkur þegar er vaxtalækkunarfasi um heim allan, en það snýst svo við þegar vextir fara að hækka á ný. En lykilatriðið fyrir okkur er að sá stöðugleiki sem við höfum haft í rekstrinum síðan núverandi reikniregla var tekin upp hefur skipt sköpum.“


Ótekin orka ekki óseld


Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja Íslandi, sendi frá sér greiningu á dögunum um að virkja þyrfti töluvert mikið á næstu þremur áratugum svo að orkuskipti á Íslandi geti átt sér stað og að vægi hreinna orkugjafa yrði aukið sem skyldi, einkum í samgöngum. Í samtali við Fréttablaðið hélt Bjarni Bjarnason því fram að næg orka væri til staðar á Íslandi til að knýja allan bílaflota landsmanna með rafmagni, enda kallaði það á um það bil 3,5 prósent af því rafmagni sem framleitt er í dag á Íslandi. Í augnablikinu væri um það bil 7,5 prósent umframmagn í kerfinu.

Hörður segir mikilvægt að gera greinarmun á óseldri og ótekinni orku úr íslenska raforkukerfinu. „Við erum skuldbundin til að afhenda þá orku sem hefur verið samið um. Þó að það sé umframorka í kerfinu núna, vegna þess að viðskiptavinir eru ekki að fullnýta samninga sína, þá getum við ekki afhent hana nýjum viðskiptavinum. Á árinu 2018 var raforkukerfið á Íslandi fullselt, það er ekki lengra síðan en þá. Síðan hefur skollið á kreppa sem kemur mjög niður á allri hrávöruframleiðslu og stóriðjan á Íslandi er ekki undanskilin þar. Þó að það sé tímabundin niðursveifla í orkunotkun nú, er ég mjög bjartsýnn á raforkueftirspurn á Íslandi til lengri tíma litið og tel að eftirspurn muni aukast á næstu árum og áratugum.“

Við getum alltaf keppt á sterkum grundvelli til lengri tíma þó að markaðsaðstæður séu erfiðar núna.

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, tekur í svipaðan streng: „Það er dýfa í eftirspurn núna, enda eru tvö kísilver úti og gagnaverin hafa dregið mjög úr orkukaupum sínum. Gagnaverin eru kvik og elta bara lægsta kostnaðinn og geta fært sig hratt a milli landa, enda endurnýja þau allan tækjabúnað á 18 mánaða fresti að jafnaði. Ég held að til lengri tíma ættum ekki að eltast við slíka viðskiptavini.“

Tómas segir að nákvæmlega núna sé orkuverð á Íslandi ekki samkeppnishæft við ákveðin önnur svæði, eins og til dæmis Noreg og Svíþjóð. „Þar hefur átt sér stað ákveðin offjárfesting í raforkuframleiðslu og þar að auki er vatnsstaðan í uppistöðulónum hærri en hún hefur verið í mörg ár. Það ýtir verðinu niður til skemmri tíma. En það er hættulegt að taka alltaf punktstöðu og taka langtímaákvörðun út frá skammtímastöðu. Rétt eins og þegar menn tóku punktstöðuna 2018, sáu verðin í Noregi og töldu sig geta rukkað hærra verð hér heima, er ekki rétt að taka aftur punktstöðu núna og taka afdrifaríkar ákvarðanir út frá því. Við getum alltaf keppt á sterkum grundvelli til lengri tíma þó að markaðsaðstæður séu erfiðar núna.“

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.


Svartsengi stækkað


HS Orka tilkynnti nýlega að fyrirætluð væri stækkun á uppsettu afli Reykjanesvirkjunar úr 100 megavöttum í 130. Stækkunin snýr að því að nýta betur affallsvarma núverandi virkjunar og því ekki þörf á nýjum borholum. Samkvæmt útboðsgögnum HS Orku eru verklok áætluð síðla árs 2022. „Eftir að vinnunni við Reykjanesvirkjun lýkur ætlum við að ráðast í stækkun á Svartsengi líka. Við teljum okkur geta bætt við 30 megavöttum af uppsettu afli þar, sem myndi auka afkastagetu um liðlega 40 prósent. Þar verður gömlum túrbínum skipt út fyrir nýjar til að nýta borholurnar betur.