Aðalheiður Jóhannsdóttir, sérfræðingur í umhverfisrétti, segir engar horfur á að svipaðir dómar kunni að falla gegn fyrirtækjum á Íslandi og var nýlega felldur gegn olíurisanum Shell í Haag.

Fyrirtækið hyggst nú draga úr útblæstri koltvísýrings í kjölfar þess að dómstóll dæmdi það til að hefta útblásturinn um 45 prósent fyrir árið 2030.

„Þetta mál var rekið á grundvelli sérstakrar lagaheimildar í hollenskum rétti sem ekki eru til í íslenskum rétti,“ segir Aðalheiður. „Þetta eru lög sem heimila einstaklingum og öðrum aðilum sem eiga ekki hagsmuna að gæta að mynda málsóknarfélag og leggja fram kröfur. Okkar regluverk er öðruvísi og ekki eru sambærilegar reglur um málsóknarfélög.“

Aðalheiður segir íslenska lagaumhverfið hafa breyst frá því að svonefndir Kárahnjúkadómar voru felldir árin 2002 og 2003.

„Á þessum tíma gilti svokölluð actio popularis-regla og í skjóli hennar gátu allir kært í stjórnsýslunni án þess að vera beinir hagsmunaaðilar. En þessum reglum var breytt árið 2005.“

Aðspurð hvort eftirspurn sé eftir upptöku sambærilegra lagaákvæða til að heimila myndun málsóknarfélaga af þessu tagi á Íslandi segir Aðalheiður að huga verði að því. „Fyrsta skrefið væri að skoða tvo dóma sem gengu 2017 og 2018 eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála var stofnuð. Það verður gert á málþingi í haust hjá Lögfræðingafélaginu þar sem við kollegi minn verðum með málstofu um þessi tvö mál.“