Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, telur að arðsemiskrafa Bankasýslu ríkisins til Íslandsbanka og Landsbankans sé allt of há. Það væri vel ásættanlegt fyrir eigandann, ríkið, að fá lægri ávöxtun á eigið fé bankanna.

„ 7,75%-9,25% ávöxtunarkrafa er allt of há þegar áhættulausir raunvextir eru undir einu prósenti, sérstaklega þegar haft er í huga að bankarnir eru með nokkuð eðlileg eiginfjárhlutföll og ekki í mjög áhættusömum rekstri,“ skrifar Gylfi á Facebook-síðu sína í framhaldi af frétt Markaðarins í dag þar sem greint er frá því að arðsemi eigin fjár Íslandsbanka hafi verið allt að fjórum prósentustigum undir kröfu Bankasýslu ríkisins á síðasta ári.

Arðsemi eigin fjár Íslandsbanka nam 5,1 prósenti á fyrstu níu mánuðum síðasta árs og var því umtalsvert undir þeirri lágmarks ávöxtunarkröfu sem Bankasýsla ríkisins, sem fer með eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka og Landsbankanum, setti bankanum í árslok 2018 en krafan var á síðasta ári á bilinu 7,75 til 9,25 prósent.

Bankinn náði heldur ekki arðsemiskröfu Bankasýslunnar þegar litið er til arðsemi eigin fjár hans án bankaskatts og einskiptiskostnaðar en þannig reiknuð nam arðsemin 7,3 prósentum á tímabilinu.

Í samningi Bankasýslunnar og Íslandsbanka um almennt og sérstök markmið í rekstri bankans, sem var undirritaður í desember árið 2018, er kveðið svo á um að bankinn skuli grípa til „viðeigandi ráðstafana“ ef arðsemi af áframhaldandi starfsemi á ársgrundvelli uppfyllir ekki arðsemismarkmið bankans í fjárhagsáætlun eða lágmarks ávöxtunarkröfu ríkisins á tveimur samliggjandi ársfjórðungum.

Er ávöxtunarkrafan skilgreind sem áhættulausir vextir, það er vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana í Seðlabanka Íslands, að viðbættu fimm prósenta álagi. Má geta þess að umræddir vextir fóru lækkandi á síðasta ári - úr 4,25 prósentum í 2,75 prósent - samhliða vaxtalækkunum Seðlabankans.