Um áramótin mun niðurfelling af hluta af virðisaukaskatti sem lækkar verð á rafmagnsbílum renna sitt skeið, en þá má gera ráð fyrir töluverðum afturkipp í sölu rafmagnsbíla. Þetta segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdarstjóri Félags íslenskra bifreiðareigenda.
Í fréttatilkynningu frá Bílgreinasambandinu kemur fram að hæsta hlutfall seldra bíla á landinu það sem af er ári séu rafmagnsbílar. Runólfur segir að niðurfelling á hluta af virðisaukaskatti hafi spilað stórt hlutverk í rafbíla-æðinu, ásamt háu eldsneytisverði í kjölfar átakanna í Úkraínu, en það muni að öllum líkindum breytast á nýju ári.
„Það er búið að boða breytingar frá og með komandi áramótum og þá lækkar virðisaukaskatts ívilnunin annars vegar og svo hins vegar kemur á nýtt fimm prósent vörugjald á rafbíla. Þannig að margir munu væntanlega reyna að ná sér í rafbíla áður en sú breyting gengur yfir,“ segir Runólfur.
Ívilnanir stjórnvalda á rafmagnsbílum eru í dag í formi lækkaðs virðisaukaskatts sem gildir út árið 2023, en þó að hámarki fyrir 20 þúsund bíla frá árinu 2012 og þar til kvótinn er tæmdur. Samkvæmt Bílgreinasambandinu má gera ráð fyrir að kvótanum verði náð á vormánuðum 2023. „Það hefur ýtt mörgum að kaupa sér rafbíl sem fyrst,“ segir Runólfur, sem býst við að sala rafmagnsbíla dragist saman á nýju ári.
„Það má gera ráð fyrir því að það verði töluverður afturkippur í þessum orkuskiptum í samgöngum á landinu. Af því að verðmunur á milli rafbíla og hefðbundinna brunahreyfils bíla verður orðinn það mikill að hinn almenni borgari veigrar sér við að fara í rafbílinn,“ segir Runólfur og telur hann að stefna stjórnvalda að fara í orkuskipti muni ganga til baka með þessum hætti.

Ákveðin landsvæði þurfa að bæta innviðina
Runólfur segir að töluvert fleiri væru búnir að fjárfesta í rafbílum ef það væri nægilegt framboð, en Covid-faraldurinn hafði mikil áhrif á framleiðslu rafmagnsbíla.
„Það er skortur á rafmagnsbílum miðað við eftirspurn. Covid-faraldurinn hafði vissulega áhrif, það hefur verið skortur á tölvukubbum í bíla sem hefur komið hart niður á rafbílaframleiðslu. Framleiðendur, sérstaklega í Evrópu og Bandaríkjunum hafa þurft að skera töluvert niður framleiðsluna og seinka því að nýir bílar komi frá verksmiðjunum,“ segir Runólfur.
Rafbílaeigendur hafa lengi kallað eftir fleiri hleðslustöðvum, sérstaklega úti á landi, en dæmi eru um langar biðraðir við vegasjoppur og fjölfarna ferðamannastaði þar sem fólk keppist um hleðslustöðvar til að geta komið bílnum áleiðis.
Aðspurður hvort innviðurinn í landinu sé nægilega sterkur fyrir orkuskipti bílaflotans, segir Runólfur að það sé uppbygging víðs vegar og að það gangi vel að rafbílavæða landið.
„Það eru ákveðin landsvæði þar sem þarf að bæta innviðina. Það er töluverð mikil uppbygging í gangi og það hefur allt verið að horfa til betri vegar. Einn megin hvatinn varðandi umskiptin yfir í rafbíl er líka að hafa aðgang að heimarafmagni, sem er líka jákvætt samfélagslega að fólk geti nýtt sér kvöld- og næturrafmagn, þegar neysla rafmagns er mikið minni,“ segir Runólfur.