Nýtt ís­lenskt fjár­tækni­fé­lag, Verna, hefur starf­semi í dag og segir Frið­rik Þór Snorra­son, fram­kvæmda­stjóri fé­lagsins, að fé­lagið muni bjóða allt að 40% lægra verð á öku­tækja­tryggingum en gengur og gerist á ís­lenskum trygginga­markaði.

Þetta kemur fram í til­kynningu sem fé­lagið sendi frá sér í morgun.

Þar kemur fram að öll þjónusta fari fram í gegnum app og við­skipta­vinir geti sjálfir stýrt verð­lagningu á tryggingunum.

Haft er eftir Frið­rik Þór, sem er fyrr­verandi for­stjóri Reikni­stofu bankanna, að hægt sé að á­ætla að 70 til 80% bif­reiða­eig­enda á Ís­landi séu að greiða of há ið­gjöld. Þessu ætli fé­lagið að breyta.

„Tryggingar á Ís­landi hafa hækkað gríðar­lega á síðustu sjö árum eða um ríf­lega 68%. Á sama tíma hefur verð­bólga verið um 17%. Við það bætist svo að um­ferðar­slysum á Ís­landi fer hlut­falls­lega fækkandi sem ætti að skila sér í lægra verði á öku­tækja­tryggingum en það hefur ekki gerst. Það segir sig sjálft að það þarf að breyta virkni ís­lenska trygginga­markaðarins í grund­vallar­at­riðum,“ er haft eftir Frið­rik Þór í til­kynningunni. Hann var ráðinn for­stjóri Viss ehf. árið 2019 en fé­lagið með býður meðal annars upp á tryggingar fyrir far­síma.

Í til­kynningunni kemur fram að fyrir­tækið hafi þróað sínar eigin staf­rænu lausnir sem eru notaðar til að mæla akstur við­skipta­vina í gegnum app. Er öku­skorið mælt út frá eftir­farandi fimm þáttum og því betri sem aksturinn er því lægri eru bif­reiða­tryggingarnar:

Hraða - Appið nemur hvort þú keyrir hraðar eða hægar en aðrir í kringum þig.

Mýkt - Appið nemur hversu mjúk­lega þú líður um göturnar. Stöðugur hraði er á­hættu­minnstur.

Ein­beitingu - Síma­notkun á ekki heima undir stýri, betri ein­beiting gefur betra skor.

Tíma dags - Nætu­r­akstur er um 10x á­hættu­samari en akstur á daginn.

Þreytu - Það er hættu­legt að keyra tímunum saman án þess að stoppa.

Frið­rik segir að með appinu geti við­skipta­vinir sjálfir stýrt verðinu. Appið búi til svo­kallað öku­skor sem leið­beinir við­skipta­vinum um hvernig þeir geta bætt aksturinn og þannig lækkað verðið í hverjum mánuði. „Bestu öku­mennirnir geta lækkað verðið sitt um allt að 40% miðað við markaðs­verð en að jafnaði geta við­skipta­vinir Verna keyrt verðið niður um 20%,“ segir Frið­rik Þór í til­kynningunni.

Fram kemur að allir sem eru 18 ára og eldri, eru skráðir eig­endur eða með­eig­endur bílsins, geti tryggt bílinn hjá Verna. Þurfa væntan­legir við­skipta­vinir að sækja Verna appið, skrá sig í við­skipti og skrifa undir upp­sögn á gömlu tryggingunum með raf­rænum hætti í appinu.