Ég á bágt með að trúa því að tvö fyrirtæki á samkeppnismarkaði semji um jafntefli á þeim grundvelli að sömu lífeyrissjóðir eigi hlut í báðum fyrirtækjum,“ segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Birtu. Í umsögn Samkeppniseftirlitsins til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um fyrirhugaða sölu á hluta eignar ríkissjóðs í Íslandsbanka segir meðal annars að samkeppnishömlur geti falist í því að sömu fjárfestar eigi í mörgum eða öllum fyrirtækjum í sömu atvinnugrein.

Ólafur nefnir einnig að ekki megi líta á lífeyrissjóði sem eina heild, enda séu fjölmargir lífeyrissjóðir umsvifamiklir á innlendum verðbréfamörkuðum og þeir taki fjárfestingarákvarðanir hver á sínum forsendum: „Þetta eru margir sjóðir. Hver og einn getur selt sig út úr félögum ef þeir sjá tilefni til þess, eins og dæmin sanna.“

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, tekur undir það sjónarmið: „Sjóðirnir starfa sjálfstætt og eiga ekki samstarf eða samráð um einstakar fjárfestingar. Stjórnir og starfsfólk sjóðanna er mjög meðvitað um að virða reglur og sjónarmið sem gilda um þetta,“ segir Gunnar.

Í umsögn Samkeppniseftirlitsins um hugsanlegar samkeppnishömlur vegna eignarhalds Íslandsbanka, segir meðal annars: „Fyrir liggur að lífeyrissjóðir eiga í mörgum tilvikum veigamikinn eignarhlut í fleiri en einu atvinnufyrirtæki á sama markaði. Huga þarf sérstaklega að áhættum sem fylgja slíkum hagsmunatengslum, ekki síst ef til þess kæmi að sömu lífeyrissjóðir ættu að auki veigamikinn eignarhlut í fleiri en einum viðskiptabanka.“

Þá bendir eftirlitið á að samanlagður eignarhlutur þeirra lífeyrissjóða sem eiga yfir 1% hlut í Arion banka, öðrum aðalkeppinauti Íslandsbanka, nemi um 35% af heildarhlutafé bankans. Þar af eiga þrír stærstu sjóðirnir um 24% hlut.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóða.

Sú staða sem þarna er lýst er þegar fyrir hendi í öðrum skráðum félögum. Fimm lífeyrissjóðir – Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna, A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, Birta og Stapi – eiga samanlagt um 38 prósent hlut í Högum. Meðal vörumerkja undir hatti Haga eru Hagkaup, Krónan og Olís. Sömu fimm sjóðirnir eiga svo samanlagt ríflega 41 prósent hlut í Festi, sem er beinn samkeppnisaðili Haga. Meðal þeirra verslana sem Festi rekur eru Krónan og N1. Fyrirtækin tvö eru því augljóslega beinir keppinautar á meðan sömu fimm fjárfestar eiga um tvo fimmtu hlutafjár í báðum félögum. Svipuð staða er uppi varðandi eignarhald tryggingafélaga.

„Það eru að mínu mati bæði kostir og áhyggjuefni að lífeyrissjóðir eru stórir hluthafar í ákveðnum félögum. Það er jákvætt að almenningur eigi hlut í skráðum hlutafélögum í gegnum lífeyrissjóði, en þannig má segja að félögin séu í raun almenningshlutafélög. Það er einnig jákvætt að lífeyrissjóðir, sem fagfjárfestar, sjái sér hag í að fjárfesta í félögunum. Sjóðirnir hafa flestir mótað sér eigendastefnu eða hluthafastefnu, meðal annars með ákvæðum um gegnsæi, stjórnarhætti og samfélagslega ábyrgð sem þeir fylgja eftir,“ segir Gunnar.

Þetta eru margir sjóðir. Hver og einn getur selt sig út úr félögum ef þeir sjá tilefni til þess, eins og dæmin sanna.

„Það má líka benda,” útskýrir hann, „að það væri erfitt fyrir sjóðina að velja einstök félög innan atvinnugreinar og útiloka önnur á grunni samkeppnissjónarmiða, sjóðirnir vilja hafa val um að dreifa áhættu með því að fjárfesta í mörgum hlutafélögum.“

Hann tekur hins vegar undir að það kunni að vera áhyggjuefni hversu stór hlutur sjóðanna er í einstökum félögum og greinum: „Það á sér skýringar í því að þeir fara með megnið af sparnaði landsmanna. Þrátt fyrir að sjóðirnir fylgi eftir eigendastefnu er ekki við því að búast að þeir verði leiðandi fjárfestar í einstökum félögum eða búi yfir sama drifkrafti og einkafjárfestar.“

Ólafur nefnir einnig að tilnefningarnefndir skráðra fyrirtækja, sem hafa það hlutverk að velja hæfasta fólkið til stjórnarsetu, gætu haft hlutverki að gegna við að tryggja að samkeppnissjónarmiða sé gætt. Slík sjónarmið gætu þannig haft aukið vægi við val nefndanna á stjórnarmönnum viðskiptabankanna og félaga þar sem eignarhald lífeyrissjóða þverast yfir samkeppnismarkað.

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.

Telur að vægi skyldusparnaðar sé orðið of hátt á Íslandi


Bent hefur verið á að auka þurfi frjálsræði við ráðstöfun sparnaðar landsmanna, til að mynda með frjálsari ráðstöfun séreignarsparnaðar. Gunnar Baldvinsson hjá Almenna segir að vægi skyldusparnaðar á Íslandi sé orðið of mikið.

„Ég er persónulega þeirrar skoðunar að vægi skyldusparnaðar á Íslandi í sparnaði einstaklinga sé orðinn of hár, en í raun má segja að flestir landsmenn séu skyldaðir til að greiða fimmtung af launum sínum í lífeyrissjóð (15,5 prósent) og í viðbótarlífeyrissparnað, sem er 4 prósent og er í raun þvingaður sparnaður. Því ef launþegi greiðir ekki 2 prósenta eigið framlag fær hann ekki 2 prósenta mótframlag.

Þegar skylduiðgjald er orðið þetta hátt er lítið svigrúm fyrir venjulegt launafólk til að vera með annan sparnað og fjárfesta meðal annars í hlutabréfum. Ég myndi vilja að fram færi ítarleg greining á sparnaðarþörf einstaklinga og það verði skoðað hvort þörf sé á svona miklum skyldusparnaði. Ég er einnig þeirrar skoðunar að æskilegt sé að lagaumhverfi lífeyriskerfisins verði endurskoðað þannig að einstaklingar fái meira svigrúm til að ráðstafa séreignarsparnaði sínum, til dæmis í hlutabréf,“ segir Gunnar.