Hagfræðingar Viðskiptaráðs þau Elísa Arna Hilmarsdóttir og Gunnar Úlfarsson telja líklegt að verðbólgan sé búin að toppa en hún er nú 9,7 prósent.

Þetta sögðu þau í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur verður á sjónvarpsstöðinni Hringbraut klukkan 19:00 í kvöld.

„Það er erfitt að segja til um það nákvæmlega en við erum að sjá að helsti drifkraftur verðbólgunnar hefur verið húsnæðisliðurinn og það eru ýmsar vísbendingar um að það sé að líða undir lok það brjálæði ef má orða það þannig,“ segir Elísa og Gunnar tekur í sama streng.

Aðspurð hvernig þau telja að verðbólgan muni þróast segja þau að það sé háð ýmsum óvissuþáttum.

„Við höfum ekki lagt neitt tölulegt mat á það en þetta auðvitað veltur á ýmsum óvissuþáttum eins og með stríðið þó svo að landamæri þess séu engin eða áhrifanna. Við erum líka að sjá hræðilegar fréttir af hækkandi orkuverði og það stefnir mögulega í harðan vetur. Við vitum ekki með hvaða hætti það smitast til okkar,“ segir Elísa.

Gunnar bætir við að þau séu bjartsýn á að verðbólgan muni koma niður á næstu mánuðum það sé bara spurning hversu hratt eða hægt.

Í þættinum var einnig rætt um fjármagnstekjuskatt, kjarasamningana sem nú eru fram undan og stöðu efnahagslífsins á komandi mánuðum.