Greinendur hagfræðideildar Landsbankans telja að arðgreiðslugeta Arion banka geti numið um fimmtíu milljörðum króna á næstu tólf mánuðum. Þar af gæti útgáfa bankans á víkjandi bréfum sem teljast til annars vegar eiginfjárþáttar tvö og hins vegar viðbótareiginfjárþáttar eitt losað um allt að 22 milljarða króna til hluthafa.

Þetta kemur fram í nýlegri af­komu­spá hagfræðideildar Landsbankans sem Markaðurinn hefur undir höndum.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, hefur sem kunnugt er sagt að viðskiptamódel bankans muni byggja í meiri mæli á milliliðahlutverki þar sem efnahagsreikningurinn verði notaður með sértækari hætti en áður samtímis því að bankinn veiti þjónustu sem feli í sér minni eiginfjárbindingu.

Í afkomuspá greinenda Landsbankans er rakið að geta Arion banka til þess að greiða hluthöfum arð geti verið umtalsverð á næstu tólf mánuðum og þá sérstaklega ef bankanum tekst að minnka fyrirtækjalánabók sína og nýta til fulls heimild sína til þess að gefa út víkjandi bréf.

Sérfræðingar Landsbankans benda meðal annars á að samkvæmt gróflegum útreikningum sínum geti tuttugu prósenta minnkun á lánasafni Arion banka til fyrirtækja, alls um áttatíu milljarðar króna, eins og áætlun forsvarsmanna bankans fyrir árið 2020 gerir ráð fyrir, losað um fimmtán milljarða króna til handa hluthöfum.

Til viðbótar við útgáfu víkjandi skuldabréfa og minnkun á fyrir­tækja­lánabókinni taka greinendur hagfræðideildar Landsbankans fram að umfram eigið fé Arion banka sé um þrettán milljarðar króna. Eiginfjárkrafan á bankann standi enda í 21,8 prósentum, að teknu tilliti til nýlegrar hækkunar á sveiflujöfnunarauka og stjórnendaauka, en eiginfjárhlutfall bankans var 23,8 prósent í lok þriðja fjórðungs síðasta árs.

Þá telja greinendurnir að sala Arion banka á fimmtíu milljarða króna íbúðalánasafni til Íbúðalánasjóðs, sem gekk í gegn á síðari hluta síðasta árs, geti losað um alls 3,5 milljarða króna eigið fé.

Allt í allt gæti því arðgreiðslugeta Arion banka numið um fimmtíu milljörðum króna á næstu tólf mánuðum, að mati hagfræðideildar Landsbankans, ef miðað er við stöðu áhættuveginna eigna bankans í lok þriðja fjórðungs síðasta árs.