Helgi Vífill Júlíusson
helgivifill@frettabladid.is
Miðvikudagur 14. október 2020
07.00 GMT

Algengt er að það taki 10 til 15 ár fyrir sprotafyrirtæki að springa út. Fjárfestingar í slíkum fyrirtækjum krefjast því þolinmæði. Þær eru að sama skapi uppspretta nýrra, vel launaðra sérfræðistarfa og eru forsenda fyrir hagvexti til framtíðar. Þetta segir Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Frumtaks Ventures.

Frumtak Ventures rekur tvo vísisjóði sem fjárfest hafa í 21 fyrirtæki, svo sem Controlant, SidekickHealth og Meniga. Sjóðirnir, sem fjármagnaðir eru af lífeyrissjóðum, hafa fjárfest fyrir sjö milljarða króna í þessum fyrirtækjum og fengið meðfjárfesta með sér sem hafa fjárfest fyrir um 11 milljarða þannig að heildarfjárfesting í fyrirtækjunum er um 18 milljarðar. Heildarverðmat fyrirtækja í eignasafni Frumtaks-sjóðanna er um 32 milljarðar í dag. Nýsköpunarfyrirtæki sem sjóðir Frumtaks eru hluthafar í eru með 660 starfsmenn og er reiknað með að starfsmönnum þeirra muni fjölga um 70 til 100 á ári.

Þetta segir Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Frumtaks Ventures.
Fréttablaðið/Anton Brink

Svana segir að þegar rekstur sprotafyrirtækja sé kominn á skrið verði veldisvöxtur í ráðningum. Almennt starfi tveir til tíu hjá fyrirtækjunum fyrstu þrjú árin, næstu þrjú ár fari fjöldi starfsmanna í tíu til 20, þeir verði svo 20-50 næstu þrjú ár og loks taki veldisvöxtur í ráðningum við samhliða því að virði fyrirtækis margfaldist, að því gefnu að reksturinn gangi að óskum.

„Verðmætustu fyrirtækin í eignasafni vísisjóða bæta mestu við virði sitt á síðustu tveimur eða þremur árunum áður en þau eru seld. Þess vegna geta þessar eignir sýnt litla virðisaukningu í mörg ár áður en þau verða afar verðmæt. Þetta hefur endurspeglast greinilega í þróun á verðmati Frumtakssjóðanna síðustu ár. Gott dæmi er Controlant en sjóðurinn fjárfesti fyrst árið 2011 og var verðmatið þá tæpar 300 milljónir, í dag er félagið metið á tæpa 13 milljarða,“ segir hún.


„Verðmætustu fyrirtækin í eignasafni vísisjóða bæta mestu við virði sitt á síðustu tveimur eða þremur árunum áður en þau eru seld.“


Svana segir að þumalfingursreglan um afkomu vísisjóða sem fjárfesti í tíu félögum sé að allt að þriðjungur nái ekki að skila höfuðstól til baka og jafnvel tapist, allt að þriðjungur nái rétt að skila höfuðstól til baka með lítilli ávöxtun, allt að þriðjungur skili einhverri ávöxtun að ráði og loks sé talið mjög gott ef eitt félag skili mikilli ávöxtun.

Hagkerfið á tímamótum

Íslenska hagkerfið stendur á tímamótum. „Stoðir þess byggja á náttúruauðlindum eins og fiski, orku og náttúrufegurð sem dregur að ferðamenn. Það er ekki sjálfbært til lengri tíma. Hagvöxtur til framtíðar þarf að byggja á hugviti. Nýsköpun eykur verðmætasköpun og stuðlar að sjálfbærum hagvexti til lengri tíma, hún er einnig undirstaða áframhaldandi lífsgæðasóknar Íslendinga. Helstu fjárfestingatækifæri vísisjóða í nýsköpun á Íslandi eru í tæknifyrirtækjum sem geta vaxið hratt,“ segir Svana.

Vísisjóðir hafa gegnt mikilvægu hlutverki í að brúa bilið á milli sprotafjármögnunar, sem er samsett af styrkjum frá Tækniþróunarsjóði, fjárfestingum frá Nýsköpunar­sjóði atvinnulífsins og viðskiptaenglum, og síðan sjóða sem fjárfesta í þroskuðum rekstrarfélögum.

„Hlutverk þeirra er mikilvægt því ef ekki er tryggt fjármagn til sprota til að vaxa þá ná fyrirtækin ekki að verða burðarstólpi í atvinnulífinu sem æskilegt er í samfélagi sem vill fjölbreytt atvinnulíf, vel launuð störf og fyrirtæki sem skapa gjaldeyri.

Stærstu fjárfestar í vísisjóðum á Íslandi eru lífeyrissjóðirnir og gegna þeir mikilvægu hlutverki því það er nánast ógerlegt að safna í sjóð án þeirra þátttöku. Það má þakka þeim fyrir hugrekkið að stíga skrefið með þátttöku í Frumtak 1 eftir hrunið í lok 2008 og í aðra vísisjóði í framhaldi af því. Þessar fjárfestingar, hugvitsdrifnar fjárfestingar, geta orðið grunnstoð í okkar hagkerfi á næstu áratugum með þessu framhaldi,“ segir hún.

Eftirfylgni lykilatriði

Að sögn Svönu skiptir eftirfylgni með sprotafjárfestingum lykilmáli svo að þær geti tekist vel. „Þrátt fyrir að nýsköpunarfyrirtæki séu komin með tekjur og viðskiptavini ríkir oft á tíðum áfram óvissa um tekjur þeirra og framtíðarvöxt þar sem hann byggir á nýrri vöru, tækni eða markaði. Hér er ekki aðeins um óvissu að ræða er varðar það hvort tekjur skili sér heldur einnig hvaða tíma það tekur og því mikilvægt að fyrirtækjum sé veittur stuðningur í formi ráðgjafar og eftirfylgni.

Aðalsmerki starfsins eru árangursrík samskipti við frumkvöðla og stjórnendur fyrirtækja þar sem reynsla fjárfestingastjóranna í Frumtak Ventures í rekstri fyrirtækja skilar sér, ekki aðeins í úrlausn tækifæra heldur einnig í erfiðum málum sem fylgja fjárfestingum sem þessum. Það þarf einnig að búa yfir því úthaldi og þrautseigju sem þarf til og með faglegum vinnubrögðum sem má sjá í ferlum, hlítingu við stefnur, góða stjórnarhætti og skýrslugjöf til hluthafa.

Eftirfylgni sjóðsins með fjárfestingum sínum og fjárfestingaferillinn sem sjóðurinn hefur þróað hafa sýnt sig að vera afgerandi árangursþættir fyrir það hvernig hefur tekist til við starfsemi sjóðsins. Náið samstarf með stjórnendum fyrirtækja og stjórnarseta veitir aðhald, þekkingu og aðgang að öflugu tengslaneti,“ segir hún.

Heildarvirði aukist um 13 milljarða frá áramótum

Svana segir að ýmis tæknifyrirtæki geti vaxið hratt á tímum COVID-19 þótt vissulega fylgi ástandinu miklar áskoranir. Frá áramótum hafi heildarvirði eignasafns Frumtakssjóðanna aukist um tæpa 13 milljarða króna. Það varpi ljósi á áhættudreifinguna sem fólgin sé í því að fjárfesta í sprotafyrirtækjum. Mörg þeirra, eins og Controlant og SideKickhealth, séu í örum vexti.

„Þessi fyrirtæki geta stækkað hratt í svona árferði þar sem sala og markaðssetning er ekki háð ferðalögum og fundum. Fyrirtækin í eignasafni Frumtaks eru með öflug teymi og skýran möguleika á skalanlegum alþjóðlegum vexti. Það eru mikil tækifæri í til dæmis fjártækni, heilsutækni, menntatækni, matvælatækni, orkutækni og umhverfistækni,“ segir hún.

Annmarkar á heimild lífeyrissjóða

Það er mikil áskorun að fjármagna vísisjóð í íslensku umhverfi. „Það eru fyrst og fremst lífeyrissjóðir sem fjárfesta í þeim,“ segir Svana.

„Heimild lífeyrissjóða til fjárfestinga í þessum eignaflokki skiptir því höfuðmáli við fjármögnun vísisjóða. Mjög mikilvægt skref var tekið þegar heimild þeirra til fjárfestinga í vísisjóði var hækkuð úr 20 prósentum í 35 prósent fyrr á þessu ári,“ segir hún.

Að hennar sögn virðast lagalegir annmarkar valda því að lífeyrissjóðir muni ekki nýta heimildina. Það sem standi í vegi sé einkum tvennt. Annars vegar að heimildin sé tímabundin og gildi aðeins til 1. janúar 2025.

Hins vegar að heimildin sé skilyrt því að innlausn skuli ekki fara fram fyrstu fimm árin. „Tilgangurinn með þessu skilyrði er óljós,“ segir Svana. Hún segir að ef fyrirtæki sé selt innan fimm ára megi ekki greiða andvirði sölunnar til hluthafa. Hefðu reglurnar verið með þessum hætti þegar Frumtak 1 seldi DataMarket hefði sjóðurinn ekki mátt skila fjármunum til hluthafa um leið.

„Á meðan íslenskir lífeyrissjóðir eru jafn stórir hluthafar í vísisjóðum og raun ber vitni hefur takmörkun á fjárfestingaheimild þeirra mikil áhrif á stærð íslenskra vísisjóða. Ef lífeyrissjóðirnir halda sig við 20 prósent í stað 35 prósent heimild, þá verða íslenskir vísisjóðir ekki mikið stærri en fimm til sex milljarðar þar sem fram að þessu hafa ekki nema tveir til þrír lífeyrissjóðir nýtt heimildina að fullu. Aðrir lífeyrissjóðir hafa fjárfest um þrjú til tíu prósent í hverjum sjóði. Það sem gæti breytt þessu er að mengi fjárfesta stækkaði ef til dæmis bankar og tryggingafélög myndu taka frekari þátt en þeir gera í dag,“ segir hún.

Athugasemdir