Eggert Smári Sigurðs­son, stofnandi Smári’s Vol­ca­no Sauce, stendur frammi fyrir mikilli út­rás í heimi kjúk­linga­vængja á Ís­landi. Frá 2020 hefur hann selt sterkar vængja­sósur með þremur mis­munandi styrk­leikum og vonast nú til að geta bráðum selt eigin osta­stangir og kryddaða vængi í verslunum Hag­kaups.

„Vængirnir eru kryddaðir með sér­stakri krydd­blöndu sem er að­eins vægari en vægasta sósan sem við seljum. Kryddið ber heitið Gríms­nes og passar vel við allar sósurnar við seljum nú þegar,“ segir Eggert en allar sósurnar eru nefndar eftir ís­lenskum eld­gosum. Styrk­leiki hverrar sósu sam­svarar stærð eld­gosanna og heita þær Askja, Hekla og Katla.

Hug­myndin um að tengja sósurnar við ís­lensk eld­gos kom frá sænska hönnuðinum Ted Karls­son sem hannaði bæði vöru­merkin og alla lím­miðana. „Þetta er maður sem dýrkar Ís­land en hann segir að það sé of dýrt og of kalt til að búa hérna,“ segir Eggert.

Eggert Smári kynntist fyrst sterkum sósum á meðan hann bjó bæði í At­lanta í Georgíu-fylki og í banda­rísku borginni Mont­gomery í Ala­bama. Eftir að hafa komið aftur til Ís­lands segist hann hafa orðið leiður á þeim sterku sósum sem stóðu til boða hér og fannst vanta meiri styrk­leika á markaðinn. Eggert byrjaði að prufa sig á­fram með ýmsar krydd­tegundir og var fljót­lega farinn að búa til sínar eigin sósur.

Þrátt fyrir hóg­væra stærð fram­leiðslunnar segir Eggert eftir­spurnina vera mikla og þá sér­stak­lega í kringum banda­rísku Ofur­skálina. Yfir þeim leik er al­gengt að á­horf­endur víða um heim gæði sér á hefð­bundnum banda­rískum mat og þá sér­stak­lega sterkum kjúk­linga­vængjum. Eggert á­kvað að bjóða einnig upp á kjúk­linga­vængi yfir þann tíma en náði varla að mæta eftir­spurninni.

„Ég pantaði fyrst um 25 kíló af vængjum en ég fékk sjálfur svo mikið af pöntunum að ég endaði á því að klára allar birgðir hjá bæði Mat­fugli og Holta í Reykja­vík. Ég neyddist svo til að keyra alla leið upp á Hellu til að full­nægja öllum pöntununum og ég held að ég hafi meira að segja klárað allar birgðirnar hjá þeim líka.“

Eggert segist vera mikill að­dáandi banda­rískra í­þrótta og hefur jafn­vel selt sósur sínar á meðan hann fylgist með sunnu­dags­leikjum á veitinga­staðnum American Bar við Austur­stræti.

„Ég var orðinn þreyttur á þessum sömu sósum sem virðast alltaf fylgja kjúk­linga­vængjum á nánast öllum veitinga­stöðum. Þannig að ég byrjaði að taka mínar eigin sósur með og bað bara um þurra vængi með engri sósu og það fór að vekja smá at­hygli. Fólk fór að spyrja mig út í sósuna og sumir sem smökkuðu voru það hrifnir að þeir ein­fald­lega keyptu bara af mér hálfa flöskuna.“

Eggert segir að einn þeirra hafi verið bar­eig­andi frá borginni Fíla­delfíu í Banda­ríkjunum. Hann hafi keypt sósuna og haft sam­band við Eggert nokkrum vikum seinna til að panta sex flöskur af hverri tegund. „Þeir höfðu svo sam­band við mig núna um jólin og sögðu mér að sósan væri að slá í gegn hjá við­skipta­vinum þeirra.“

Net­sala á Vol­ca­no sósunni er­lendis hefur einnig færst í aukana og segir Eggert að mest sé pantað frá Dan­mörku og Banda­ríkjunum. Rúm­lega 30 flöskur hafi farið til Banda­ríkjanna um jólin og segir Eggert að þær sendingar hafi að öllum líkindum verið jóla­gjafir. Hann segir að það sé mjög vin­sælt meðal á­huga­manna um sterkar sósur að eiga tegundir frá mis­munandi heims­hornum.

„Þegar þú pantar þér mozzarella-osta­stangir hérna á Ís­landi þá eru þær á stærð við títu­prjón."

Eggert telur fram­tíð fyrir­tækisins bjarta enda segir hann mikla þörf vera á því sem hann kallar „al­vöru í­þrótta-bar­snarli“ á Ís­landi. Sam­hliða sölu á sterkum sósum segist hann vilja selja eins mikið af hefð­bundnum mat­vörum sem finnast á börum úti í heimi og henta full­kom­lega fyrir í­þrótta­á­horf.

„Þegar þú pantar þér mozzarella-osta­stangir hérna á Ís­landi þá eru þær á stærð við títu­prjón. Þær eru í rauninni bara jafn stórar og franskar kar­töflur sem þú myndir fá á sport-bar í Banda­ríkjum. Við erum farin að horfa á sömu í­þróttir og þeir, af hverju ekki að bjóða upp á jafn safa­ríkan mat líka?“