Fall WOW air mun fyrst hafa áhrif á ferðaþjónustuna og síðan ná til atvinnugreina eins og smásölu, bílasölu og fasteignasölu. Þetta segir Hugh Short, forstjóri bandaríska fjárfestingafélagsins Pt Capital, í stuttum pistli á LinkedIn.

Pt Capital á helmingshlut í íslenska fjarskiptafélaginu Nova og helmingshlut í Keahótelum.

„Spurningin er hversu hratt önnur flugfélög geta aukið afköst, hversu stórt skarð mun standa ófyllt, og hvernig íslenskt viðskiptalíf og stjórnvöld bregðast við,“ skrifar Short.

„Ég tel að til skemmri tíma (2019) verði tekjur í ofangreindum atvinnugreinum undir væntingum. Frá 2020 mun líklega draga úr áhrifunum.“

Þá segir hann að fall WOW air geti stuðlað að því að ferðaþjónusta á Íslandi þroskist sem atvinnugrein. Hún verði fyrirsjáanlegri og stöðugri við hægari vöxt. Ferðaþjónustan geti höfða til ferðamanna í milli og efri stétt.

„Stóra spurningin er hvers vegna íslensk stjórnvöld aðstoðuðu ekki við að halda flugfélaginu í rekstri og fá inn faglegri fjárfesta til að koma því í jafnvægi? Það hefði verið hægt að komast hjá þessu öllu saman.“