Tekjur tækni- og vefhönnunarfyrirtækisins Ueno námu 1,7 milljarði króna á síðasta ári og hagnaðist það um 128 milljónir króna.

Uneo sérhæfir sig í því að skapa vörumerki, vörur og markaðsherferðir fyrir fyrirtæki með hönnun og tækni að leiðarljósi. Meðal viðskiptavina Ueno má nefna Google, Economist, Motorola, Microsoft, YouTube, Airbnb, Apple, Dropbox, Facebook, Google, Samsung og Uber.

Haraldur Þorleifsson stofnaði fyrirtækið einn síns lið í íbúð sinni í Reykjavík árið 2014. Fimm árum seinna eru fleiri en 60 starfsmenn og skrifstofur Ueno eru í San Francisco, New York, Los Angeles og Reykjavík.

Haraldur var valinn viðskiptafræðingur ársins í vor og í kjölfarið fékk Viðskiptablaðið hann í viðtal. Þar fór hann yfir ævintýralegan vöxt fyrirtækisins.

„Við fjölskyldan flytjum fyrst út til Tokýó þar sem við vorum búsett í rúmt ár. Næstu ár flytjum við svo úr borg í borg, fyrst Vancuover, Portland, Búenos Aíres, Ríó og Barcelona. Þetta gátum við vegna þess að ég gat unnið hvar sem er. Samhliða þessu flakki fara verkefnin að stækka og fjölga. Áður en vissi af var ég farinn að ráða til mín undirverktaka í hin og þessi störf og þannig byggðist upp hópur í kringum mig af fólki sem mér fannst gott að vinna með. Þetta var grunnurinn sem varð til þess að ég stofnaði Ueno,“ sagði hann.