Hagnaður af starfseminni nam 10,6 milljónum dala, eða tæpum 1,4 milljörðum króna, sem er verulegur viðsnúningur frá fyrra ári þegar 10,2 milljóna dala tap varð af rekstrinum. Starfsfólki fjölgaði um 225 á árinu 2021 og starfa nú yfir 370 manns hjá félaginu þar af yfir 300 á Íslandi. Auk Íslands er Controlant með starfsstöðvar í Bandaríkjunum, Hollandi og Póllandi og starfsmenn í yfir 10 löndum.

Mikill tekjuvöxtur og vaxandi umsvif skýrast að stærstum hluta af þjónustu við lyfjafyrirtækið Pfizer, sem notar lausnir frá Controlant við dreifingu Covid-bóluefna um allan heim. Lausnir Controlant rauntímaskrá m.a. hitastig, staðsetningu og framgang í flutningi og greina frávik, svo bregðast megi við í rauntíma til að tryggja gæði, rekjanleika og lágmarka tjón og sóun. Alls kom Controlant að dreifingu og geymslu 3,5 milljarða bóluefnaskammta frá Pfizer á síðasta ári.

Auk Pfizer eru mörg af stærstu lyfjafyrirtækjum heims meðal viðskiptavina Controlant og hafa gert langtímasamninga um innleiðingu á lausnum félagins. Þeir samningar, samhliða auknu þjónustuframboði, styðja áframhaldandi vöxt og uppbyggingu á tekjustoðum félagsins til framtíðar.

Controlant þjónustar einnig fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum, t.d. matvælaiðnaði og flutningum, auk fjölda viðskiptavina á Íslandi.

Stjórnendur Controlant greindu frá því á aðalfundinum í dag, að fyrirtækið gæti nú boðið víðtækari lausnir og þjónustað viðskiptavini sína enn betur en áður. Nýjar lausnir væru afrakstur öflugs rannsóknar- og þróunarstarfs en Controlant varði yfir 15 prósentum af tekjum síðasta árs í rannsóknir og þróun eða um 1,4 milljörðum króna. Nýsköpun leggur grunninn að framtíðarvexti og skýrri framtíðarsýn félagsins sem er að umbylta virðiskeðjum með aukinni sjálfvirkni og sýnileika sem eykur skilvirkni og dregur úr sóun. Merki þess sæjust nú þegar, þar sem gert væri ráð fyrir að tekjur fyrirtækisins muni tvöfaldast á þessu ári.

Gísli Herjólfsson, forstjóri og Controlant:

„Controlant hefur nýtt vel aðstæður undanfarinna ára og styrkt samkeppnisstöðu sína verulega. Við njótum mikils trausts meðal viðskiptavina okkar, sem hafa sóst eftir aukinni þjónustu og nánara samstarfi. Við höfum tekið að okkur ný verkefni, aukið sjálfvirkni til að draga úr sóun og bætt gagnatengingar milli ólíkra kerfa og aðila svo dæmi séu nefnd. Fyrir vikið erum við komin lengra inn í virðiskeðjur og ferla viðskiptavina okkar en áður, sem skapar mikil tækifæri til frekari þróunar og vaxtar.“

Á aðalfundinum í dag var greint frá því að fjárhagsstaða Controlant væri sterk og framtíðarhorfur bjartar. Að baki félaginu stendur breiður hópur innlendra og erlendra fjárfesta. Hluthöfum fjölgaði um eitt hundrað á síðasta ári og eru nú um 250 talsins. Fram kom í máli Ásthildar Otharsdóttur, stjórnarformanns félagsins, að erlendir fjárfestar hafi í auknum mæli sýnt félaginu áhuga. Það væri mat stjórnar og stjórnenda Controlant að aðkoma sérhæfðra fjárfesta geti stutt enn frekar við framtíðaruppbyggingu félagsins og skapað ávinning til framtíðar fyrir alla hluthafa þess. Stjórn félagsins mun áfram meta þá möguleika sem fyrir hendi eru á hverjum tíma.

Á aðalfundinum var stjórn Controlant endurkjörin, en auk Ásthildar Otharsdóttur, stjórnarformanns, sitja í stjórninni þau Frosti Ólafsson, Kristín Friðgeirsdóttir, Jørgen Rugholm og Trausti Þórmundsson.