Tap var af rekstri Sýnar á þriðja ársfjórðungi sem nam 71 milljón króna borið saman við hagnað upp á 207 milljónir á sama tímabili fyrir ári. Tapið á fjórðungnum skýrist að mestu vegna einskiptiskostnaðar að fjárhæð 150 milljónir sem samanstendur af uppgjöri á vaxtaskiptasamningi félagsins og starfslokagreiðslum.

Þá lækkuðu tekjur félagsins um rúmlega 5 prósent og námu samtals 4.878 milljónum króna á fjórðungnum. Hagnaður Sýnar fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 1.623 milljónum og minnkaði hann um liðlega 9 prósent á milli ára.

EBITDA félagsins er hins vegar nokkuð meiri en sumar spár greinenda gerðu ráð fyrir en hagfræðideild Landsbankans áætlaði meðal annars að hún yrði 1.507 milljónir á tímabilinu. Hins vegar var rekstrarkostnaður Sýnar, sem var um 1.559 milljónir, litlu meiri en hagfræðideildin spáði fyrir og eins voru tekjur félagsins lítillega lægri en bankinn hafði spáð fyrir um. Gerði hagfræðideildin ráð fyrir 79 milljóna króna hagnaði Sýnar eftir skatt.

Horfur Sýnar fyrir árið 2019 eru óbreyttar og gerir félagið ráð fyrir að EBITDA verði um 5,6 milljarðar króna.

Tekjur Sýnar af fjölmiðlun lækkuðu um 7 prósent milli ára og námu 1.946 milljónum króna. Þá drógust sömuleiðis tekjur af interneti saman um 5 prósent og voru samtals 1.216 milljónir á meðan tekjur af farsíma stóðu nánast í stað og námu 1.041 milljónum króna.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri og einn stærsti hluthafi Sýnar, segir í afkomutilkynningu að uppgjörið sé vitnisburður um að félagið hafi „náð tökum á rekstrinum. Nýtt spáferli sem unnið er eftir gefur okkur mun betri mynd af undirliggjandi þáttum og við teljum að það muni leiða til frekari bata í rekstri á næstu fjórðungum. Sjóðstreymi 3. ársfjórðungs batnar á milli ára og reksturinn batnar umtalsvert frá öðrum ársfjórðungi. Aðgerðir sem gripið var til í sumar, með endursamningum við birgja og fækkun stöðugilda mun koma fram í rekstri við lok ársins og að fullu á nýju ári,“ segir Heiðar.

Sýn keypti fyrr á árinu íslenska upplýsingatæknifyrirtækið Endor, sem sér um að reka og stýra ofurtölvum og tengdum þjónustum í Svíþjóð, Noregi, Þýskalandi og víðar, en það verður dótturfélag fyrirtækisins.

„Við sjáum fjöldamörg tækifæri til samþættingar og aukinnar tekjuöflunar við kaupin. Kaupverðið fer eftir afkomu fyrirtækisins en er á bilinu 1,5 - 5 sinnum EBITDA, eftir því hvernig málum fram vindur,“ er haft eftir Heiðari í tilkynningunni.

Þá nefnir hann að Sýn hafi kynnt nýtt verkefni um lagningu sæstrengs, sem ber heitið Celtic Norse, í London ásamt samstarfsaðilum í síðustu viku.

„Það sem hefur hamlað uppbyggingu gagnavera á Íslandi er hár kostnaður sæstrengja sem hingað liggja. Þetta verkefni getur lagað þá stöðu umtalsvert,“ að sögn Heiðars.

Hlutabréfaverð Sýnar hefur lækkað um 35 prósent frá áramótum.