Út frá gögnum Hagstofunnar er hægt að reikna meðallaun í hinum ýmsu atvinnugreinum. Fyrirvarar eru þó margir á þeim útreikningum, til dæmis er mjög mismunandi eftir greinum hve stórt hlutfall starfsfólks er í hlutastörfum og þá er vinnumagn á bak við tekjur einnig mismunandi, mismunandi menntunarstig, kynjaskipting og fleira. Tölurnar sýna því meðallaun alls starfsfólks í viðkomandi greinum án nokkurrar mælinga á vinnumagni þess eða samsetningu.

Fjármálastarfemi og sjávarútvegur skera sig úr með hæstu tekjurnar.

Meðaltekjur á mánuði mjög mismunandi

Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru meðaltekjur á mánuði fyrstu 10 mánuði ársins 2021 um 434 þúsund á mánuði. Af þeim greinum sem hér eru sýndar voru meðaltekjurnar langhæstar í fjármála- og vátryggingarþjónustu og í sjávarútvegi (veiðar og vinnsla saman). Meðaltekjur í þessum greinum eru meira en tvöfalt hærri en að meðaltali á vinnumarkaðnum og enn ber að minna á að þar er ekki tekið tillit til vinnumagns á bak við tekjur. Það er líka athyglisvert að allar þær greinar sem hér eru sýndar eru með hærri meðaltekjur en meðaltalið.

Laun lækkuðu lítið eitt í fjármálageiranum en hækkuðu mest í ferðaþjónustu á síðasta ári.

Breyting meðallauna milli ára

Á milli 2020 og tíu fyrstu mánaða ársins 2021 hækkuðu meðaltekjur allra á vinnumarkaði um 2,7 prósent. Af þeim greinum sem hér eru sýndar hækkuðu tekjurnar mest í ferðaþjónustu, um 8,6 prósent. Tekjurnar hækkuðu um 6-7 prósent í sjávarútvegi, opinberri stjórnsýslu og heild- og smásölu. Fjármála- og vátryggingarstarfsemi hefur mikla sérstöðu meðal þessara greina, en þar voru tekjur nær óbreyttar á milli ára.

Í nýlegri Hagsjá kom fram að launasumman í ferðaþjónustu hafi lækkað um 2,6 prósent milli fyrstu 10 mánaða 2020 og 2021 og að starfsfólki hafi fækkað um 11,8 prósent. Meðallaunin hafa því hækkað talsvert í greininni sem hefur búið við miklar sveiflur síðustu ár. Í Hagsjám hefur nokkrum sinnum verið fjallað um erfiðleika við mönnun starfa í ferðaþjónustu.

Laun opinberra starfsmanna hafa hækkað mest frá 2015.

Horft til lengri tíma

Sé litið yfir lengri tíma má sjá að meðallaun hafa hækkað með nokkuð reglubundnum hætti í öllum greinum á tímabilinu frá 2015. Einu undantekningarnar eru í sjávarútvegi í upphafi tímabilsins og í ferðaþjónustunni eftir 2019. Að meðaltali hafa tekjur allra á vinnumarkaði hækkað um rúm 25 prósent frá 2015. Af þeim greinum sem hér eru sýndar hafa tekjur hækkað mest í opinberri stjórnsýslu, eða um rúm 41 prósent. Þar á eftir koma ferðaþjónustan og heild- og smásala. Af þessum greinum er fjármála- og vátryggingarstarfsemi aftur með töluverða sérstöðu og þar hafa tekjurnar hækkað mun minna en í hinum greinunum.

Mismunandi þróun innan greina

Þessar tölur sýna að tekjustig og þróun tekna innan hinna ýmsu atvinnugreina er mjög mismunandi. Þarna skipta ýmsir þættir máli. Þar má t.d. nefna útfærslu síðustu kjarasamninga með krónutöluhækkunum sem felur í sér að laun hafa hækkað minna á síðustu þremur árum í þeim greinum þar sem tekjur eru hæstar.