MAR Advisors, fyrirtækjaráðgjöf sem meðal annars er í eigu Magnúsar Bjarnasonar, jók tekjur sínar úr 53 milljónum króna á árinu 2019 í 121 milljón árið 2020. Þetta kemur fram í ársreikningi.

Fyrirtækið jók hagnað sinn úr 17 milljónum króna árið 2019 í 28 milljónir króna árið 2020.

MAR Advisors er sérhæft á sviði innviða og sjávarútvegs og hefur meðal annars starfað fyrir bankann Macquarie, Norsk Hydro, Clearwater, vísisjóðinn Frumtak við sölu á hlut í Völku og fjárfesta, þar á meðal Bjarna Ármannsson, þegar þeir eignuðust 44 prósenta hlut í Iceland Seafood International.

Magnús Bjarnason, fyrrverandi forstjóri Icelandic Group, á 44 prósenta hlut í MAR Advisors, Jón Garðar Guðmundsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Icelandic Group, á 30 prósenta hlut og Rósant Már Torfason sem meðal annars hefur unnið hjá fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka, á 26 prósenta hlut.

Markaðurinn sagði frá því snemma á þessu ári að Jón Garðar hafi gengið til liðs við MAR Advisors.

Eigið fé félagsins var 53 milljónir króna við lok síðasta árs. Hlutafé var aukið um 7,5 milljónir króna á árinu 2020. Fram kemur í ársreikningnum að hluthafar fengu 42 milljónir króna greiddar í arð árið 2019. Árið 2019 átti Magnus 63 prósenta hlut í MAR Advisors og Rósant Már 37 prósenta hlut.