Tekjur reiðhjólaframleiðandans Laufs Cycling voru 100 milljónir fyrir þremur árum en stefna í einn milljarð í ár. Benedikt Skúlason, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, útskýrir tekjuvöxtinn á þá leið að fyrirtækið hafi annars vegar hafið framleiðslu á hjólum í stað þess að einblína á fjöðrunargaffla fyrir hjól og hins vegar að Lauf Cycling hafi hætt að selja reiðhjólin í yfir 100 verslunum í Bandaríkjunum og selji nú beint til viðskiptavina á netinu.

Þetta kom fram í sjónvarpsþættinum Markaðinum sem var á dagskrá Hringbrautar í gær.

Lauf Cycling selur malarhjól (e. gravel), þau eru með hrútastýri en á breiðum dekkjum. Benedikt á 21,8 prósenta hlut í fyrirtækinu, Nýsköpunarsjóður 10,6 prósent, TM á 4,7 prósent og félag á vegum hjónanna Davíðs Mássonar og Lilju Ragnhildar Einarsdóttur á 2,6 prósent.

Benedikt segir að sala beint til viðskiptavina hafi hafist í júlí í fyrra og frá þeim tíma hafi fyrirtækið verið rekið með hagnaði. Ástæðan fyrir því að viðskiptamódelinu hafi verið breytt var að það „var ekki nóg eftir í kassanum“ eftir hver mánaðamót. Það sem þetta fyrirkomulag geri að verkum sé að Lauf geti boðið hjól á mun betra verði en stóru merkin. Dýra hólið þeirra kosti til dæmis 6.500 Bandaríkjadali en sambærilegt hjól kosti 11.000 hjá þekktum merkjum. Engu að síður hafi hjólið frá Laufi fengið betri dóma.

Aðspurður segir Bendikt að stóru merkin muni ekki hefja sölu beint á netinu því að þau eigi mikið undir að selja í hjólaverslunum og að erfitt sé fyrir ný merki að ryðja sér til rúms ef þau búi ekki að sérstöðu.

Benedikt segir að Lauf geti „hæglega tífaldað“ söluna í Bandaríkjunum með því starfa á þeirri syllu sem fyrirtækið sé á, með malarhjól.

Að hans sögn er til skoðunar að auka hlutafé Laufs um hartnær 200 milljónir á næsta ári til að styðja við vöxtinn og nýta féð til að fjármagna birgðahald en stefnt sé á að fyrirtækið tvöfaldi veltuna á næsta ári.