Stjórnendur íslenska nýsköpunarfyrirtækisins Kerecis áætla að tekjur félagins á þessu fjárhagsári, sem hófst 1. október síðastliðinn, verði samtals um 24 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um þriggja milljarða íslenskra króna, og þrefaldist þannig frá fyrra ári.

Þetta kom fram á aðalfundi Kerecis sem fór fram í gærmorgun, samkvæmt heimildum Markaðarins, en reksturinn á fyrstu tveimur mánuðum fjárhagsársins er í samræmi við áætlanir félagsins. Gert er ráð fyrir að aukin velta Kerecis muni fyrst og fremst koma til vegna vaxtar á Bandaríkjamarkaði.

Kerecis, sem er með höfuðstöðvar sínar á Ísafirði, framleiðir afurðir sem byggðar eru á affrumuðu þorskroði sem inniheldur fjöl­ómettaðar fitusýrur. Afurðirnar hafa jákvæð áhrif á frumuvöxt og eru seldar til meðhöndlunar á þrálátum sárum og brunasárum.

Stjórnendur gera ráð fyrir að salan á Bandaríkjamarkaði, sem hafi gengið vel að undanförnu og skilningur félagsins og fótfesta á þeim markaði styrkst ört, muni halda áfram að aukast verulega. Þannig kom fram í máli Guðmundar Fertrams Sigurjónssonar, framkvæmdastjóra Kerecis, á fundinum að fyrirtækið búist við því að vera komið með yfir 200 sölumenn í Bandaríkjunum 2022.

Þá er gert ráð fyrir því í langtímaáætlunum félagsins að heildarvelta Kerecis verði komin yfir 200 milljónir dala eftir fimm ár, að því er fram kom á aðalfundinum.

Kerecis lauk fyrr á þessu ári fjármögnun fyrir sextán milljónir Bandaríkjadala. Félagið seldi þá nýtt hlutafé til núverandi hluthafa og nýrra fyrir um 1.250 milljónir og auk þess var kröfum skuldbreytt í hlutafé að upphæð um 750 milljónir.

Á meðal þeirra sem bættust þá við hluthafahóp Kerecis voru samtökin Emerson Collective, sem voru stofnuð af Laurene Powell Jobs, ekkju Steve Jobs, stofnanda Apple, en þau breyttu kröfum sínum í hlutafé fyrir 390 milljónir og settu jafnframt inn nýtt fjármagn í félagið. Er Emerson Collective nú á meðal stærstu hluthafa Kerecis. Miðað við almenna gengið í hlutafjárhækkuninni, um 2.000 krónur á hlut, gæti virði Kerecis verið allt að 12,4 milljarðar.

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, var kjörinn í stjórn Kerecis í ágúst. Var Ólafur tilnefndur í stjórn af Laurene Powell Jobs.