Hekla, sem hefur umboð fyrir Volkswagen, Audi, Skoda og Mits­ubishi, tapaði 17 milljónum króna á síðasta ári, samanborið við 26 milljóna króna tap árið 2018. Tekjur bílaumboðsins námu 12,5 milljörðum króna og drógust saman um 26 prósent frá fyrra ári, þegar þær námu tæplega 17 milljörðum.

Kostnaðarverð seldra vara lækkaði að sama skapi um tæp 28 prósent og nam rúmlega 10,2 milljörðum króna á árinu. Framlegð fyrirtækisins nam tæplega 2,3 milljörðum króna og dróst saman um 18 prósent á milli ára.

Friðbert Friðbertsson, forstjóri og annar af tveimur eigendum Heklu, sagði í viðtali við Markaðinn í nóvember að stjórnendur bílaumboðsins hefðu búist við 20-25 prósenta samdrætti á árinu, meðal annars í ljósi þess að þá stefndi í erfiðar kjaraviðræður, bílaleigur myndu ekki njóta lengur niðurfellingar á tollum og minni umsvif yrðu í ferðaþjónustu. Brugðist hefði verið við samdrættinum með því að hagræða í rekstri og birgðahaldi, og ferlar hefðu verið bættir.

Friðbert á helmingshlut í Heklu á móti Semler Group, sem er innflytjandi vörumerkja Volkswagen í Danmörku. Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir félagsins 4.126 milljónum króna í lok árs og bókfært eigið fé nam 1.553 milljónum.

Starfsmönnum Heklu fækkaði um 17 á árinu, úr 138 niður í 121, og launakostnaður lækkaði í takt. Hann nam 1.307 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 1.466 milljónir árið 2018