Markaðsvirði íslenska hátæknifyrirtækisins Controlant, byggt á nýlegum viðskiptum með bréf í félaginu, hefur meira en tvöfaldast á aðeins um hálfu ári og nemur nú tæplega 40 milljörðum króna.
Tekjuvöxtur Controlant, sem hefur meðal annars verið í lykilhlutverki við dreifingu á bóluefni gegn COVID-19 fyrir lyfjarisann Pfizer, er mun meiri en fyrri áætlanir ráðgerðu en útlit er fyrir að tekjurnar á þessu ári nífaldist frá árinu 2020 og verði samtals 63 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 7,6 milljarða króna. Á næsta ári er búist við því að tekjurnar vaxi áfram og verði 125 milljónir dala, jafnvirði um 15 milljarða króna.
Guðmundur Árnason, fjármálastjóri Controlant, staðfestir þetta í svari til Markaðarins en aðalfundur félagsins fór fram í síðustu viku. Hann segir tekjuvöxtinn byggja að langmestu á samningum við núverandi viðskiptavini en auk viðskipta við Pfizer, sem hefur staðið undir stærstum hluta teknanna, hefur Controlant meðal annars einnig gert samninga við lyfjafyrirtækin Merck, Roach og GlaxoSmithKline.
Vöxtur Controlant, sem er að miklum meirihluta í eigu íslenskra fjárfesta, hefur verið ævintýralegur en fyrirækið þróaði hugbúnað og vélbúnað til að fylgjast með lyfjum og matvælum í flutningi svo hægt sé að fylgjast með ástandi og staðsetningu þeirra hvar sem er í heiminum.
Á aðalfundi Controlant, sem fór fram síðastliðinn fimmtudag, kom meðal annars fram að fyrirtækið hefði þurft að fjölga starfsmönnum að jafnaði um níu talsins í hverjum mánuði frá því í ársbyrjun 2020. Í dag starfa yfir 200 manns hjá fyrirtækinu, að langstærstum hluta á Íslandi, en samkvæmt áætlunum verða þeir orðnir um 300 talsins í árslok.
Guðmundur segir að Controlant geri ráð fyrir að þessi vöxtur í ráðningum á nýju starfsfólki verði að meirihluta hér á landi en félagið sé hins vegar áfram að byggja upp starfsemi sína í Bandaríkjunum og Evrópu.
Afar lítil viðskipti hafa verið með hlutabréf í Controlant að undanförnu en undir lok síðasta mánaðar seldu Akta sjóðir, samkvæmt heimildum Markaðarins, lítinn hluta bréfa sinna í félaginu á genginu 7 þúsund krónur á hlut – hlutafé félagsins er samtals 5,4 milljónir að nafnvirði – sem metur það því á um 38 milljarða króna. Talsverð spurn hefur verið eftir bréfum í Controlant en að sögn kunnugra hefur hins vegar verið lítill áhugi á meðal hluthafa að selja og benda sumir á að algengt sé verðmiði sambærilegra erlendra fyrirtækja, sem eru í jafn miklum vexti, sé um 20 til 30 sinnum tekjur þeirra.
Síðustu stóru viðskiptin með bréf í Controlant voru þegar sjóðurinn Frumtak I, sem fjárfesti fyrst í fyrirtækinu 2011, seldi í nóvember á liðnu ári rúmlega 11 prósenta hlut sinn fyrir um 2 milljarða. Miðað við þá sölu, sem var á genginu 3.200 krónur á hlut, var virði Controlant metið á 17 milljarða en á svipuðum tíma áttu sér einnig stað minni viðskipti sem fóru fram á lítillega hærra gengi.
Á aðalfundi Controlant voru gerðar breytingar á stjórn félagsins en Ásthildur Otharsdóttir, sem hætti í stjórn Marels fyrr á árinu eftir að hafa verið stjórnarformaður í sjö ár, kemur ný inn og verður jafnframt stjórnarformaður en hún er í dag meðeigandi og fjárfestingastjóri hjá Frumtaki Ventures. Þá hefur Jørgen Rugholm, sem hefur starfað og verið meðeigandi hjá ráðgjafafyrirtækinu McKinsey í Danmörku í nærri 30 ár, einnig bæst við í stjórn Controlant en þau Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Frumtaks, og Ingi Guðjónsson, fjárfestir og einn eigenda Lyfju, hafa á sama tíma farið úr henni. Aðrir stjórnarmenn eru Trausti Þórmundsson, Frosti Ólafsson og Kristín Friðgeirsdóttir.
Í árslok 2020 var sjóðurinn Frumtak II stærsti eigandi Controlant með 12,9 prósenta hlut en aðrir helstu hluthafar félagsins eru fjárfestingafélagið Stormtré, sem er í eigu Hreggviðs Jónssonar, eignarhaldsfélagið Líra, sem er í eigu hjónanna Halldóru Baldvinsdóttur og Valdimars Bergstað, og félagið Kaskur, sem er í eigu Inga Guðjónssonar. Þá fer Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant, með um 3 prósenta hlut.