Controlant, sem gegnir veigamiklu hlutverki við dreifingu á bóluefni gegn COVID-19 fyrir Pfizer, þreytti frumraun sína í að þjónusta lyfjaiðnað við að vakta hitastig á bóluefni gegn svínaflensu á Íslandi fyrir rúmlega áratug. „Segja má að við höfum statt og stöðugt verið að byggja félagið upp til að takast á við verkefni sem þetta,“ segir Gísli Herjólfsson, framkvæmdastjóri og einn stofnanda Controlant.

Dómnefnd Markaðarins valdi samning Controlant við Pfizer um að dreifa bóluefninu, sem viðskipti ársins. Einnig var nefnt að félagið hefði farið í tvær vel heppnaðar hlutafjáraukningar á árinu. Aflað var samtals um þrem og hálfum milljarði króna til að styðja við vöxt fyrirtækisins.

Nánari umfjöllun má finna í áramótablaði Markaðarins um það sem hæst bar í íslensku viðskiptalífi á árinu.

Augu og eyru Pfizer

Gísli segir að Pfizer líti á Controlant sem augu og eyru fyrirtækisins við dreifingu á bóluefninu, sem þurfi að geyma við 80 gráðu frost.

Controlant hefur þróað hugbúnað og vélbúnað til að fylgjast með vörum í flutningi svo hægt sé að fylgjast með ástandi og staðsetningu þeirra hvar sem er í heiminum. Gísli bendir á að hlutverk Controlant í dreifingu bóluefnisins sé umfangsmeira en svo. Kerfi fyrirtækisins tryggi til dæmis að hver og einn fái réttar upplýsingar, til dæmis hvenær bóluefnið muni berast og hvort það sé í lagi að nota það.

Fyrirtækið samdi við Pfizer árið 2019 en ákveðið var í sumar þegar hilla fór undir að bóluefnið færi á markað að Controlant myndi fyrst beina kröftum sínum fyrir lyfjarisann að því að vakta einungis það lyf.

Sömdu við stærstu lyfjafyrirtæki heims

„Þjónusta okkar var á góðri leið með að vera orðið viðmið um hvernig hafa skuli gætur á lyfjum þegar COVID-19 skall á og við höfðum náð samningum við mörg af stærstu lyfjafyrirtækjum heims,“ segir hann.

Í grunninn urðum við að hrinda í framkvæmd því sem við ætluðum með Pfizer á fimm árum á einungis fimm mánuðum.

„Þjónusta okkar var á góðri leið með að vera orðið viðmið um hvernig hafa skuli gætur á lyfjum þegar COVID-19 skall á,“ segir Gísli.
Fréttablaðið/Fréttablaðið

Verkefnið sem Pfizer stendur frammi fyrir er flókið. „Ekki er um hefðbundna lyfjaflutninga að ræða þar sem gámar eru sendir á dreifimiðstöðvar, lyfjunum skipt í minni pakka og send áfram. Með þeim hætti tæki það bóluefnið þrjár vikur að komast í réttar hendur. Nei. Bóluefnið þarf að komast á tveimur dögum frá verksmiðju til viðskiptavina um allan heim. Það þarf því að annast dreifingu með allt öðrum hætti og af allt öðrum skala en áður hefur þekkst. Þess vegna skiptir það Pfizer svo miklu máli að vita eins mikið og mögulegt er um flutninga lyfsins á hverjum tíma,“ segir Gísli.

Vildu sinna öllum viðskiptavinunum

Viðskiptavinir Controlant eru um 200. „Við vildum halda dampi fyrir alla okkar viðskiptavini og koma að dreifingu bóluefnisins. Það var of mikil áhætta að beina öllum okkar kröftum að bóluefni sem ekki var komið á markað,“ segir hann.

„Segja má að við höfum byggt flugvél á meðan við flugum henni.“

Með hvaða hætti stilltuð þið fyrirtækinu upp til að sinna ykkar viðskiptavinum og undirbúa mikla dreifingu á bóluefninu?

„Það var ekki auðvelt. Í grunninn urðum við að hrinda í framkvæmd því sem við ætluðum með Pfizer á fimm árum á einungis fimm mánuðum. Segja má að við höfum byggt flugvél á meðan við flugum henni. Ákveðið var að teymið sem vinnur að og þróar grunnkerfi okkar myndi halda áfram sinni vinnu. Þess vegna settum við á fót fimm manna sérsveit, sem ég fór fyrir, sem vann að því að sérsmíða kerfi fyrir Pfizer ofan á grunnkerfið okkar. Teymið er skipað fólki með yfirgripsmikla þekkingu á öllu ferlinu. Það hefði verið erfiðara að koma verkefninu á koppinn ef teymið væri skipað 20 sérhæfðum starfsmönnum þar sem hver og einn hefði sérstakt hlutverk. Þetta teymi mátti ekki hrófla við grunnkerfinu í því skyni að verja grunnstarfsemina gegn mistökum. Af því leiðir að ef kerfið fyrir Pfizer bilar getum við alltaf nýtt grunnkerfið til að sækja upplýsingar um bóluefnið þótt sjálfvirknina skorti.“

Tókuð þið inn nýtt hlutafé til að standa straum af kostnaði við uppbygginguna í tengslum við dreifingu á bóluefninu?

„Nei, ekki beinlínis. Stjórnendur Pfizer vissu fullvel að það væri verið að biðja okkur um mikla vinnu á skömmum tíma og því fjármagnar lyfjafyrirtækið vinnuna.“

Controlant velti hátt í milljarði í ár. Gísli segir að tekjur af bóluefnaverkefninu verði stór hluti af tekjum Controlant á næsta ári. „Við gerum ráð fyrir að veltan 2021 muni fimmfaldast milli ára,“ segir hann.

„Líkja má dreifingu bóluefnis við COVID-19 við tímabundið átaksverkefni sem vara mun í um tvö ár. Tekjurnar af því verkefni munu dragast saman þegar líða tekur á árið eða fyrri part 2022, en þá taka við önnur verkefni þar sem við erum í innleiðingarfasa hjá öðrum lyfjafyrirtækjum allt næsta ár.“

Mikill áhugi erlendis frá

Merkið þið aukinn áhuga frá erlendum fjárfestum eða fyrirtækjum sem vilja kaupa Controlant eftir að þið komust í heimsfréttirnar vegna bóluefnisins?

„Já, en sá áhugi var til staðar áður en við komum að því að dreifa bóluefninu fyrir Pfizer. Fjárfestar eru sífellt að setja sig í samband við okkur. Áhuginn hefur vissulega ekki minnkað eftir að þetta verkefni varð opinbert.“

Hafið þið veitt stjórnvöldum aðstoð við að ræða við Pfizer um að bólusetja íslensku þjóðina á skömmum tíma?

„Stjórnvöld hafa ekki leitað til okkar en ég hef rætt við þá hæst settu starfsmenn sem ég hef aðgang að til að reyna að liðka fyrir því verkefni. Sá ber ábyrgð á allri lyfjadreifingu Pfizer. Hann kemur ekki að þessari ákvörðun en tók vel í erindið og sagðist myndi koma beiðninni áleiðis í réttan farveg. Ég veit ekki hvort það sem ég hafði að segja hefur haft áhrif. Ég veit að mörg önnur ríki hafa sett sig í samband við Pfizer og boðið fram ýmsa aðstoð gegn því að fá meira bóluefni,“ segir Gísli.