Tekjur drykkjaframleiðandans Coca-Cola European Partners á Íslandi námu 85 milljónum evra, jafnvirði um 11,8 milljarða króna, á síðasta ári og drógust saman um 6,5 prósent frá árinu 2018 þegar þær voru um 91 milljón evra.

Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri móðurfélagsins, Coca-Cola European Partners (CCEP), fyrir síðasta ár. Drykkjaframleiðandinn, sem er með starfsemi í þrettán löndum í Vestur-Evrópu, keypti sem kunnugt er starfsemina hér á landi árið 2016.

Velta CCEP á Íslandi hefur þannig dregist saman um liðlega tíu prósent frá árinu 2017 þegar hún nam um 95 milljónum evra, samkvæmt eldri ársreikningum evrópska móðurfélagsins.

Athygli vekur að af mörkuðum CCEP var tekjusamdrátturinn hvað mestur hér á landi í fyrra, 6,5 prósent eins og áður sagði, en samtals var tekjuvöxtur móðurfélagsins um 4,5 prósent á árinu. Tekjur jukust á öllum mörkuðum nema á Íslandi og í Noregi þar sem samdrátturinn nam hálfu prósenti. Mestur var vöxturinn í Frakklandi, eða um sjö prósent.

Ekki koma fram upplýsingar í ársuppgjörinu um afkomu CCEP á Íslandi á síðasta ári. Íslenska félagið hagnaðist um tæpar 167 milljónir króna árið 2018 og jókst þá hagnaðurinn um hátt í 65 prósent frá árinu 2017 þegar hann var 102 milljónir króna.

Eignir félagsins voru liðlega 7,9 milljarðar króna í lok árs 2018 en á sama tíma var eigið fé þess 5,9 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið því um 75 prósent.

Haft var eftir Einari Snorra Magnússyni, forstjóra CCEP á Íslandi, í Markaðinum í mars í fyrra að í magni væru gosdrykkir 48 prósent af sölu félagsins, bjór 22 prósent og vatn 11 prósent. Aftur á móti væri bjór og innflutt áfengi tæplega helmingur af veltu enda væri um dýrari vöru að ræða vegna áfengisskatta.

Aðspurður nefndi hann auk þess að markaðshlutdeild Coca-Cola drægist hægt og rólega saman. Fyrir áratug hefði hún verið um 70 til 80 prósent af gosdrykkjamarkaðinum en væri nú komin í 65 prósent.