Tekjur Höldurs, stærstu bílaleigu landsins, drógust saman um 25 prósent á milli ára og námu 5,3 milljörðum króna árið 2020. Bílaleigan, sem starfar undir merkjum Bílaleigu Akureyrar og Europcar, tapaði 300 milljónum í fyrra samanborið við 238 milljón króna hagnað árið 2019. Eigið fé fyrirtækisins lækkaði í rúman einn milljarð króna en eiginfjárhlutfallið var sex prósent við árslok.

Fjöldi ferðmanna til landsins dróst verulega saman vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Þekkt er að Bílaleiga Akureyrar er með sterka stöðu á innanlandsmarkaði og því var tekjusamdráttur bílaleigunnar minni en ætla mætti af markaðsaðstæðum.

Höldur rekur einnig bílasölu, bílaverkstæði, dekkjaverkstæði og er í fasteignarekstri. Mestu umsvifin eru hjá bílaleigunni. Fram kemur í skýrslu stjórnar fyrir rekstrarárið að Höldur hafi orðið að fækka starfsfólki, dregið úr starfshlutfalli annarra starfsmanna, nýtt úrræði stjórnvalda vegna heimsfaraldursins eins og hlutabótaleiðina og frestað skattgreiðslum.

Auk þess hafi verið dregið úr kostnaði með öðrum hætti. Jafnframt var samið við lánveitendur um að fresta afborgun lána fyrir 2,8 milljarða króna. Þrátt fyrir það greiddi félagið upp öll lán vegna seldra bifreiða á árinu 2020.

Á árinu 2020 fjölgaði bifreiðum sem knúnar eru áfram af endurnýjanlegum orkugjöfum úr 263 í rúmlega 500 í bílaflota Bílaleigu Akureyrar.

Steingrímur Birgisson, forstjóri Höldurs, á 40 prósenta hlut í fyrirtækinu og Bergþór Karlsson framkvæmdastjóri á 24 prósenta hlut.