Tekjur netöryggisfyrirtækisins jukust um 114 prósent á milli áranna 2019 og 2020. Vöxtinn má að mestu þakka stórum langtímasamningum við erlend fyrirtæki og endursöluaðila sem hlaupa á milljónum dollara. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Samkvæmt ársreikningi námu tekjurnar 36 milljónir króna árið 2019. Miðað við það ættu tekjurnar að hafa numið 77 milljónum króna árið 2020.

Eyrir Invest fyrsti fagfjárfestirinn

Eyrir Invest var fyrsti fagfjárfestir AwareGO og hefur stutt fyrirtækið dyggilega frá júní 2018. AwareGO er sem stendur í nánu samstarfi við fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka til að undirbúa svokallaða vaxtarfjármögnun (e. Series A) en Kvika banki aðstoðaði AwareGO einnig við síðasta fjármögnunarferli. Ástæðan fyrir hlutafjáraukningunni er að fylgja eftir þeim mikla vexti sem fyrirhugaður er á flestum sviðum AwareGO, sem og að byggja upp starfsstöðvar erlendis.

„Stórir erlendir aðilar hafa að auki sýnt AwareGO áhuga sem fjárfestingartækifæri á undanförnum 12 mánuðum,“ segir Ragnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri AwareGO sem stofnaði fyrirtækið ásamt eiginkonu sinni Helgu Steinþórsdóttur.

„Stórir erlendir aðilar hafa að auki sýnt AwareGO áhuga sem fjárfestingartækifæri á undanförnum 12 mánuðum.“

AwareGO hefur verið starfandi frá 2007 og sérhæfir sig í gerð myndbanda og kennsluhugbúnaðar sem nýtist fyrirtækjum og stofnunum við að auka netöryggi með þjálfun starfsfólks. Hugbúnaðurinn er allur í skýinu. Á meðal viðskiptavina AwareGO eru eru Credit Suisse, Barclays, General Electric, UN Women og Nethope.

„Stækkun AwareGO hefur verið ævintýraleg undanfarin tvö ár eða allt frá því að við settum hugbúnaðarlausnina okkar á markað. Við vorum áður með vinsælt kennsluefni en okkur vantaði skalanlega leið til að selja það og dreifa. Með því að hafa allt í skýjalausn náum við betur að hjálpa viðskiptavinum okkar að þjálfa sitt starfsfólk með markvissum og mælanlegum hætti. Stöðug fjölgun viðskiptavina auk stórra viðskiptasamninga og útboða sem við höfum náð að landa á undanförnu ári sýna að varan okkar er algjörlega á pari við það besta sem býðst frá mun stærri og þekktari fyrirtækjum í þessum geira,“ segir Ragnar.

Notendafjöldi sjöfaldast á tveimur árum

Notendafjöldi AwareGO hefur meira en sjöfaldast á síðastliðnum tveimur árum og 99 prósent viðskiptavina hafa endurnýjað samninga sína við fyrirtækið eftir að fyrstu áskrift líkur.

Stór hluti vaxtarins hjá AwareGO kemur til vegna aukinnar áherslu á samstarf við endursöluaðila. Aukinn kraftur var settur í þennan hluta viðskiptamódelsins í lok árs 2019. Tekjur vegna endursöluaðila sem selja efni og hugbúnað AwareGO áfram til sinna viðskiptavina hafa þrefaldast á undanförnum 12 mánuðum. Meðal endursöluaðila sem vinna með AwareGO eru þekkt fyrirtæki á borð við TrendMicro, Advania, Eloomi og Cofense. Stærstur hluti mánaðarlegra tekna AwareGO kemur þó enn í gegnum beinar sölur og hafa tekjur vegna beinnar sölu til stórfyrirtækja fimmfaldast. Þyngst vega þar stórir samningar við Fortune 500 stórfyrirtæki með gríðarlegan fjölda starfsmanna.

Vöxtur AwareGO er greinilegastur þegar kemur að mælingum á endurteknum mánaðarlegum tekjum (Monthly Recurring Revenue (MRR)) sem þrefölduðust árið 2020. Bein sala í gegnum netið til lítilla og millistórra fyrirtækja eykst nokkuð á meðan tekjur í gegnum endursöluaðila og beinar sölur til stórfyrirtækja hafa stóraukist.

Eftirspurn eftir netöryggislausnum og þjálfun fyrir starfsfólk hefur stóraukist vegna Covid-19 auk þess sem innleiðing á svokallaðri GDPR-löggjöf og öðrum svipuðum persónuverndarreglugerðum skyldar fyrirtæki til að þjálfa starfsfólk til að koma í veg fyrir leka á persónuupplýsingum og að læra að forðast tölvuárásir. Þörfin fyrir slíkt varð sérstaklega augljós í heimsfaraldri Covid-19 sem jók heimavinnu starfsfólks sem þar með fór úr nokkuð öruggu umhverfi skrifstofunnar í heimahús þar sem erfiðara er að tryggja netöryggi og fólk umgengst netið á annan hátt en á vinnustöðum.