Tekjur 66°Norður drógust saman um tólf prósent á milli ára og námu fjórum milljörðum króna árið 2020. Samdrátturinn skýrist einkum af færri ferðamönnum vegna Covid-19 farsóttarinnar. Tap fyrir skatta nam 241 milljón í fyrra, samanborið við 219 milljóna króna tap árið áður.

„Árið 2020 var ár óvissunnar,“ segir Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri fyrirtækisins, í samtali við Fréttablaðið. „Við urðum fyrir miklu höggi – sérstaklega í upphafi en svo náðum við að snúa vörn í sókn. Það fór að birta til í rekstrinum eftir maí,“ segir hann og nefnir að fyrst Íslendingar hafi ekki getað mætt í ræktina hafi þeir stundað útivist af kappi.

Helgi Rúnar segir að fyrirtækið hafi notið góðs af því í heimsfaraldrinum að hafa fjárfest árið áður og í fyrra í tæknilausnum til að efla vefsölu. „Ný vefsíða fór í loftið í september í fyrra og það hjálpaði mikið á seinni hluta ársins. Netsalan er að sækja í sig veðrið og fer að verða í kringum 15 prósent af veltu.“

66°Norður varð að loka tveimur verslunum í Kaupmannahöfn í fyrra, vegna þess að einungis matvöruverslanir og apótek máttu hafa opið um skeið í faraldrinum. Önnur verslunin opnaði um síðustu áramót og verslunin á Strikinu verður opnuð að nýju innan skamms. Helgi Rúnar segir að búist hafi verið við að netsalan í Danmörku myndi „dala“ þegar verslanir opnuðu að nýju, en það hafi ekki verið raunin.

Fram hefur komið að bandarískur fjárfestingasjóður sem á tískuhúsið Chanel, fjárfesti í tæplega helmingshlut í 66°Norður árið 2018. Hlutafjáraukningin gerði það að verkum að íslenska fyrirtækið var fjárhagslega sterkt við lok árs 2020. Eiginfjárhlutfallið var 43 prósent og eigið fé 2,7 milljarðar. „Það var ákveðin lukka að hafa stigið það skref,“ segir Helgi Rúnar