Þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar og spádóma, til að mynda frá sérfræðingahópi ASÍ, er litlar sem engar vísbendingar að finna um vaxandi ójöfnuð á síðasta ári. Síðustu ár hefur tekjujöfnuður heldur aukist, en hann stóð nokkurn veginn í stað á síðasta ári. Þetta segir Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, og vísar í ný gögn frá Hagstofunni um tekjur einstaklinga á árinu 2020.

Samkvæmt samantekt Viðskiptaráðs jukust tekjur þeirra sem stóðu í miðri tekjudreifingunni um 3,9 prósent á milli ára og kaupmáttur launanna jókst um eitt prósent á árinu 2020. Almennt virðist þróun frá lægri millitekjum og upp að háum tekjum afar svipuð. Hækkuðu um ríflega þrjú prósent á milli áranna 2019 og 2020.

Heimild: Viðskiptaráð

Samsetning teknanna breyttist þó verulega vegna heimsfaraldursins þar sem launahækkanir, bótagreiðslur og útborgun séreignarsparnaðar vógu á móti lækkun fjármagnstekna og atvinnuleysi. Aðrar tekjur, sem innihalda til dæmis bótagreiðslur, hafa aldrei verið jafn hátt hlutfall af tekjum landsmanna.

Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, segir að skýrsla sérfræðingahóps ASÍ og BSBR um ójöfnuð líti ekki eingöngu til dreifingar tekna, enda birtist ójöfnuður ekki bara í tekjuójöfnuði. „Líkt og fram kemur í skýrslunni er enn ekki ljóst hvaða áhrif Covid-kreppan mun hafa á þróun ójöfnuðar á Íslandi. Kreppur verða hins vegar almennt til þess að auka á ójöfnuð og það eru ýmsir áhættuþættir sem ber að líta til og takast á við. Vitað er að á meðan kaupmáttur launa hefur almennt aukist hefur atvinnuleysi orðið meira en nokkru sinni fyrr í nútímasögu Íslands. Atvinnuleitendur upplifa að meðaltali um 36 prósenta tekjufall á fyrstu mánuðum atvinnuleysis. Spár gera ráð fyrir áframhaldandi atvinnuleysi í hærri hæðum en við höfum átt að venjast á Íslandi og enn eru yfir sex þúsund manns í flokki langtímaatvinnulausra. Að óbreyttu ýtir þetta ástand undir ójöfnuð,“ segir hún.

Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ.
Fréttablaðið/Ernir

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir að þrátt fyrir getgátur um að ójöfnuður hafi aukist í samdrættinum þá virðist opinber gögn ekki styðja þá sýn. „Raunar virðist sem eignajöfnuður hafi aukist milli áranna 2019 og 2020 og tekjujöfnuður staðið í stað miðað við gögn úr skattframtölum. Það þarf þó að varast að draga víðtækar ályktanir út frá gögnunum þar sem ýmis mikilvæg púsl vantar í myndina, svo sem lífeyriseignir landsmanna.

Ójöfnuður virðist ekki vera sérstakt vandamál hér á landi. Ísland hefur komið einstaklega vel út í öllum samanburði hvað það varðar hvort sem horft er til Gini-stuðulsins, sem ætlað er að mæla ójöfnuð sérstaklega, fátæktar, eða hlutfalls íbúa sem býr við skort á efnislegum gæðum. Á alla þessa mælikvarða stöndum við fremst meðal þjóða og hefur þróunin að auki verið í átt til aukins jöfnuðar og minni fátæktar undanfarin ár. Rétt eins og hin Norðurlöndin verjum við einnig töluvert meiri fjármunum til félagsverndar en önnur ríki á Evrópska efnahagssvæðinu og hafa þau útgjöld aukist talsvert síðastliðin ár,“ segir hún.

Gunnar Bjarni Viðarsson, hagfræðingur hjá Arion banka.
Ljósmynd/Arion banki

Gunnar Bjarni Viðarsson, hagfræðingur hjá Arion banka, segir það jákvætt að þrátt fyrir miklar efnahagsþrengingar sem rekja megi til Covid-19 heimsfaraldursins hafi ekki orðið miklar tilfærslur þegar litið sé til tekjujöfnuðar. Það sé „ákveðinn gæðastimpill á aðgerðirnar sem gripið var til“ af hálfu hins opinbera til að milda höggið sem varð á efnahagslífið.

Hann bendir þó á að meðaltöl segi ekki alla söguna, þau varpi til dæmis ekki ljósi á aðstæður fólks sem falli utan þeirra. Það hefði verið verra ef það hefðu orðið miklar breytingar á þessum mælikvarða til viðbótar við tilfærslur sem meðaltöl nái ekki utan um.

Konráð segir að helstu frávikin í launaþróun einstaklinga á milli áranna 2019 og 2020 séu hjá þeim sem séu með eitt prósent hæstu tekjurnar, sem lækkuðu og megi væntanlega rekja til lægri fjármagnstekna, og lægstu tíu prósentanna. Þar sé um að ræða afar lágar heildartekjur eða um 166 þúsund krónur á mánuði. Þeir sem séu á svo lágum launum séu væntanlega að megninu til námsmenn en lækkunin gæti skýrist af minna framboði af hlutastörfum.

Halla segir að lægri tekjuhópar hafi tekið þyngsta tekjufallið þegar komi að atvinnutekjum. Það sé í takti við fyrri greiningar sérfræðingahóps ASÍ og BSRB. „Þróun heildartekna hefur verið með öðrum hætti og þar spilar ýmislegt inn í, til dæmis atvinnuleysistryggingar og lenging tekjutengingar bóta, auk ýmissa aðgerða sem ráðist var í til að milda höggið af kreppunni. Þá þarf að líta til þess að lægri tekjuhópar og ekki síst atvinnulausir, hafa þurft að taka út séreignarsparnað sinn til að takast á við tekjufallið, sem minnkar ójöfnuð í heildartekjum en dregur úr framtíðartekjum á meðan betur settir hópar byggja upp sparnað. Velferðarkerfið, launahækkanir Lífskjarasamninga og aðgerðir sem ASÍ hefur barist fyrir hafa mildað höggið gagnvart lægri tekjuhópum. “

Aukist á tíu árum

Konráð segir að undan­farinn áratug hafi tekjujöfnuður aukist. Tekjur þeirra sem séu við efri mörk lægstu tekjutíundar hafi aukist um 22 prósent meira en hjá öðrum að meðaltali, en tekjur þeirra sem séu við neðri mörk efsta eins prósentsins hafi lækkað um átta prósent í hlutfalli við aðra og hafi þannig aldrei verið lægri.

Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Aðspurður segir hann að áhrif þess að lægstu launin hafi hækkað mun meira en hærri laun sjáist víða. Fyrirtæki nýti tæknilausnir í meira mæli til að auka rekstrarhagræði og nefnir að það sé ekki tilviljun að hérlendis sé verðbólgan mest í Evrópu á sama tíma og hér séu mestu launahækkanirnar. Launahækkanirnar séu að leka inn í verðlagið.

Spurður hvort miklar launahækkanir hjá þeim sem lægst hafa launin dragi úr ábata af háskólamenntun segir hann að gögnin frá Hagstofunni hafi ekki aðgreint tekjur eftir menntun fólks. Haldi sú þróun áfram gefi það auga leið að það muni ekki borga sig að afla sér menntunar. Það sé staða sem við viljum ekki vera í.