Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík, sagði að ákveðin teikn væru á lofti um að bólumyndun væri á mörkuðum.

Þetta sagði hann í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem verður sýndur í kvöld klukkan 19:00 í kvöld á Hringbraut.

Már talaði á fundi á vegum Viðskiptaráðs og Samtaka fjármálafyrirtækja þar sem hann sagði meðal annars að væntingar fólks sem væru að stíga sín fyrstu skref á hlutabréfamarkaði ættu frekar að vera minni en meiri.

Í Markaðnum var Már spurður hvort það væri of seint fyrir fólk sem væru að stíga sín fyrstu skref á hlutabréfamörkuðum að komast inn á markaðinn sagði hann að hann telji svo ekki vera. „Nei ég tel ekki að það sé of seint en það er eins með hlutabréf eins og margt annað að það er betra að taka skrefin hægt. Það er líka mikilvægt að halda til haga að það er stór munur á því að fjárfesta í bréfum sem eru áhættusöm og síðan það sem ég vil kalla að fjárfesta í „leiðinlegum“ fyrirtækjum.“

Hann sagði jafnframt að hann hafi mestar áhyggjur af því að fólk setji stóran hluta af sparnaði sínum í áhættumiklar fjárfestingar. „Fólk ætti að eiga mest í „leiðinlegum“ fyrirtækjum. Fyrirtækjum sem eru með stönduga afkomu. Ég hef mestar áhyggjur af því að fólk sé að fara með stóran hluta síns sparnaðar í áhættumiklar fjárfestingar. Það eru ýmis teikn á lofti að það sé bóla að myndast.“

Aðspurður um hver hann telji að þróunin verði á mörkuðum á komandi misserum segir hann að hann telji að vaxtastig verði tiltölulega stöðugt. „Ég myndi veðja á það að vaxtastig verði frekar stöðugt og þó verðbólga muni hækka til skemmri tíma mun hún verða tiltölulega lág. Ég tel að ytri aðstæður séu jákvæðar fyrir hlutabréfamarkaðinn en að því sögðu er ómögulegt að spá fyrir um slíkt.“