Kaffi­hús Te & Kaffi munu yfir­gefa bóka­búðir Ey­munds­son, að því er fram kemur á kaffid.is. Þetta stað­festir Hall­dór Guð­munds­son, fram­kvæmda­stjóri kaffi­húsa­keðjunnar.

Er það vegna þess að ekki náðust á­fram­haldandi samningar á milli fyrir­tækjanna. Te & Kaffi má finna í fjórum verslunum Ey­munds­son, þremur í mið­bæ Reykja­víkur og einu á Akur­eyri en slíkt fyrir­komu­lag hefur verið á í ein þrettán ár.

Hall­dór segir það miður að ekki hafi náðst samningar og úti­lokar ekki frekara sam­starf fyrir­tækjanna í fram­tíðinni. Verið er að skoða mögu­leikann á því að opna annað Te & Kaffi kaffi­hús á Akur­eyri í stað þess sem lokar en ekkert liggur fyrir í þeim efnum.