Tap var á rekstri kísilvers PCC á Bakka við Húsavík á fyrstu þremur mánuðum ársins en framleiðsla þess var umtalsvert minni á fjórðungnum en búist hafði verið við. Þetta kemur fram í fjórðungsuppgjöri þýska móðurfélagsins PCC SE.

Þar kemur auk þess fram að slökkt hafi verið á einum af tveimur ljósbogaofnum kísilmálmverksmiðjunnar og er ekki gert ráð fyrir að kveikt verði á honum að nýju fyrr en í sumar.

Erfiður vetur er sagður í uppgjörinu hafa leitt til nokkurs framleiðslutaps með tilheyrandi áhrifum á sölu og rekstur. Auk þess hafi verðhækkanir á kísilmálmi á fjórðungnum ekki nýst kísilverinu að fullu enda hafi það þurft að fullnægja nokkrum eldri samningum á lægri verðum.

Þá er tekið fram í uppgjöri þýska félagsins, sem fer með tæplega 87 prósenta hlut í kísilverinu á móti þrettán prósenta hlut Íslandsbanka og íslenskra lífeyrissjóða, að teymi á þess vegum vinni nú hörðum höndum að því að hrinda í framkvæmd ýmsum aðgerðum í því augnamiði að auka skilvirkni og draga úr kostnaði við rekstur verksmiðjunnar. Vinnan miði að því að bæta afkomu hennar til framtíðar litið.

Miklar tafir og erfiðar aðstæður á hrávörumörkuðum hafa einkennt starfsemi kísilversins frá gangsetningu á vormánuðum ársins 2018.

Eins og Markaðurinn greindi frá í síðustu viku náðu forsvarsmenn kísilversins nýverið samkomulagi við verktakann sem byggði verksmiðjuna, þýska fyrirtækið SMS, um að síðarnefnda fyrirtækið greiði því fyrrnefnda um einn milljarð króna í tafabætur vegna framkvæmdanna. Vegur eingreiðslan að hluta upp á móti tapi fyrsta ársfjórðungs.

Sem kunnugt er gengu stjórnendur kísilversins frá samkomulagi um fjárhagslega endurskipulagningu þess við lánveitendur og hluthafa í mars síðastliðnum.