Sprotafyrirtækið Taktikal hefur fengið 260 milljóna króna fjármögnun frá vísisjóðnum Brunni II sem stýrt er af Brunni Ventures. Nýta á fjármagnið til að efla vöruþróun og sækja á erlenda markaði. Þetta segir Valur Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Taktikal, í samtali við Markaðinn.

Starfsmenn Taktikal, sem stofnað var árið 2017, eru átta og horft er til þess að þeir verði 16 í ár. Ef allt gengur að óskum er reiknað með að þeir verði 20 á næsta ári.

„Tæknilausn okkar er eins og rafrænn sendill,“ segir Valur Þór og nefnir að lausnin taki við undirskriftum og bjóði upp á ýmsa viðbótarþjónustu eins og að liðka fyrir því að taka við nýjum viðskiptavinum, gerð ráðningarsamninga, trúnaðaryfirlýsinga og sjálfvirkra viðskipta um kaup og sölu á bílum og fasteignum. Upplýsingum sé svo tvinnað við viðskiptatengslakerfi (CRM) þjónustuaðila. „Ferlið verður sjálfvirkt og stafrænt,“ bætir hann við.

Valur Þór segir að markaðurinn sem Taktikal starfi á sé „risastór“. Þar sem stafvæðing sé langt á veg komin vaxi markaðurinn um 50 prósent á ári en þar sem tækniþróunin er komin skemur sé vöxturinn um 25-30 prósent. „Það eru ekki nema um 15 prósent af ferlum sem er búið að stafvæða þannig að það eru 85 prósent eftir. Tækifærin eru gríðarleg,“ segir hann.

Taktikal hefur undirbúið sókn á erlenda markaði í tvö ár. „Viðskiptavinir hafa verið afar ánægðir með vöruna. Samkeppni erlendis er þó nokkur en lausnin okkar er afar góð. Við eigum fullt erindi á alþjóðavísu. Fyrir á markaðnum eru einkum eldri lausnir, sniðnar að þörfum stórfyrirtækja, en við horfum til að þjónusta lítil og meðalstór fyrirtæki. Stærri fyrirtæki nýta oft lausnir sem eru samtvinnaðar af eigin tæknideildum á meðan lítil og meðalstór fyrirtæki vilja kaupa tilbúnar lausnir. Að sama skapi er jafnan mun ódýrara og fljótlegra að innleiða okkar lausn. Munurinn er gjarnan tíu- til tuttugufaldur,“ segir hann.

Valur Þór starfaði hjá Íslandsbanka sem þróunarstjóri í sjö ár. „Þar kom ég auga á þörfina fyrir þær lausnir sem Taktikal býður upp á. Það er einungis á færi stærri fyrirtækja að reka hugbúnaðardeildir sem hafa tök á að þróa sambærilegar lausnir og við bjóðum upp á. Lítil og meðalstór fyrirtæki vilja kaupa tilbúnar lausnir og tengja þær við tölvukerfi sín með einföldum hætti,“ segir hann.

Valur Þór segir að farnar verði tvær leiðir við markaðssetningu erlendis. Annars vegar að bjóða lausnina sem viðbót við vinsæl tölvukerfi, til dæmis dæmis á sviði viðskiptatengsla. Það hafi reynst farsælt fyrir smærri hugbúnaðarhús. Hins vegar verði varan markaðssett sjálfstætt með rafrænum hætti.

Aðspurður segir hann að markmiðið sé fyrst og fremst að byggja upp fyrirtæki sem státi af heilbrigðum tekjuvexti og verðmætri vöruþróun.

Fengið styrki upp á 75 milljónir króna

Taktikal hefur verið rekið með hagnaði frá stofnun 2017. „Reksturinn hefur verið fjármagnaður með tekjum,“ segir Valur Þór. Í upphafi hafi fyrirtækið sinnt ráðgjafarvinnu og samhliða verið í vöruþróun. „Það var mikilvægt að vera í góðu samstarfi við viðskiptavini til að skilja þarfir þeirra við vöruþróunina,“ segir hann.

Sprotinn hefur fengið tvo styrki frá Tækniþróunarsjóði til vöruþróunar fyrir samtals 75 milljónir króna. Fyrir tveimur árum komu inn englafjárfestar í hluthafahópinn en til þess að geta fengið styrkina frá Tækniþróunarsjóði þurfti mótframlag frá hluthöfum. Valur Þór segir að fjárfestarnir séu vinir og vandamenn auk fjárfestinga frá hugbúnaðarfyrirtækinu Reon sem Taktikal starfi mikið með.

„Nýta á fjárfestingu Brunns til að fjárfesta í markaðssókn og vöruþróun. Markmið okkar er að koma með nýja vöru á markað strax á þessu ári sem verður sérsniðin fyrir vöxt á erlendum mörkuðum. Á næstu árum væntum við þess að tekjur að utan muni aukast verulega,“ segir hann.