„Það er mjög óheppilegt að við séum að skera okkur úr hvað þetta varðar meðal nágrannaþjóða. Þetta hefur klárlega áhrif á ferðavilja til landsins því aukið flækjustig og kostnaður hefur neikvæð áhrif á eftirspurn sem og ferðaþjónustuna í heild á Íslandi,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, og bætir við að hann telji að við munum sjá afléttingar á landmærum fljótlega.

„Ég held að það hljóti að vera að við förum að fylgja öðrum þjóðum í afléttingum á landamærum. Það er mikilvægt til að tryggja samkeppnishæfni Íslands sem ferðamannalands.“

Eftir lokun markaða í gær birti Icelandair uppgjör fyrir 3. ársfjórðung þessa árs. Fréttablaðið fjallaði um málið. Þar kom meðal annars fram að félagið hafi hagnast um 2,5 milljarða króna á fjórðungnum.

Bogi segir að stafsmenn fyrirtækisins hafi verið lykillinn að velgengni félagsins í uppbyggingunni að undanförnu.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Fréttablaðið/Ernir

„Við búum yfir mjög öflugu og reynslumiklu starfsfólki sem hefur staðið sig frábærlega í gegnum erfiðar og flóknar aðstæður. Eftirspurnin hefur verið að taka við sér og við settum leiðarkerfið í gang í sumar. Ef við berum okkur saman við önnur norræn flugfélög þá erum við að ná góðri sætanýtingu sem er til marks um þann sveigjanleika sem félagið býr yfir og hvernig starfsfólk hefur sýnt mikla útsjónarsemi við að bregðast hratt við breytingum á mörkuðum og koma auga á tækifæri.“

Aðspurður um horfur félagsins á komandi misserum kveðst Bogi bjartsýnn á að þær verði jákvæðar.

„Við erum bjartsýn og það er jákvætt að markaðir séu að opnast. Bandaríkin eru til að mynda að opnast 8. nóvember og þá er leiðarkerfið okkar í heild sinni komið í gang. Það eru þó einnig áskoranir framundan. Eldsneytisverð hefur til dæmis verið að hækka sem hefur neikvæð áhrif á afkomu flugfélaga til skemmri tíma. En ég er bjartsýnn á að við náum að aðlaga okkur að aðstæðum.“