Einu sinni á ári renna allar þóknanatekjur Fossa markaða til góðs málefnis. Starfsfólk Fossa velur málefnið hverju sinni. Vegna Covid-19 er í annað sinn fagnað rafrænt.

„Afar ánægjulegt er að geta, í samstarfi við viðskiptavini og samstarfsaðila, staldrað aðeins við og þakkað fyrir það sem vel er gert. Starfsfólk Fossa velur á ári hverju málefni til að styðja og sýnist mér, sem endranær, afar vel hafa tekist til,“ segir Haraldur Þórðarson forstjóri Fossa markaða, en Takk dagur Fossa fer fram í sjöunda sinn á morgun, fimmtudag.

Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða.

Á Takk daginn í ár renna allar þóknanatekjur Fossa til þess að koma varanlegu húsnæði yfir nýhafna starfsemi Jafningjaseturs Reykjadals. „Jafningjasetrið hóf starfsemi í Hafnarfirði í haust og var gríðarvel tekið,“ segir Haraldur. Um er að ræða félagsmiðstöð fyrir börn og ungmenni með fötlun eða sérþarfir þar sem þau hafa tækifæri til að skemmta sér með jafningjum við frístunda- og tómstundastörf. „Starfsemin fer nú fram í tímabundnu húsnæði og ánægjulegt að styðja við að hún fái varanlegan samastað.“

Auk Fossa taka Kauphöllin (Nasdaq Iceland) og uppgjörsfyrirtækið T Plús þátt í Takk deginum með því að fella niður öll gjöld af viðskiptum Fossa innan dagsins og renna þau í staðinn til söfnunarinnar. Þá gefur auglýsingastofan TVIST vinnu sína sem tengist deginum. Allt frá upphafi hefur verið mikil ánægja með framtakið og vöxtur í söfnuninni. Í fyrra söfnuðust 12,6 milljónir króna sem runnu til Geðhjálpar og árið áður runnu rúmar 11 milljónir til Rjóðursins á Landspítalanum.

Alla jafna hefur afrakstri dagsins verið fagnað með gleðskap í lok dags, en í fyrra setti heimsfaraldur Covid-19 strik í þann reikning og sama er uppi á teningnum núna. Því er farin svipuð leið og í fyrra þegar deginum var fagnað með rafrænum hætti. Þá var leitað liðsinnis „hraðfréttamanna“ til að búa til „Takk-fréttastofu“, en í ár halda leikkonurnar Saga Garðarsdóttir og Katrín Halldóra Sigurðardóttir uppi fjörinu á Takk daginn með skemmtiatriðum og stuttum myndböndum.