Óvíst er hvort áform breska fjárfestisins Edmunds Truells um lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands muni ganga eftir þar sem áformin hafa fallið í grýttan farveg hjá breskum ráðamönnum.

The Times greinir frá því að Andrea Leadsom, viðskiptaráðherra Bretlands, og Kwasi Kwarteng orkumálaráðherra hafi hafnað áformum Truells sem hafði farið fram á tryggingu fyrir lágmarksverði á raforkunni í 35 ár. Greg Clark og Claire Perry, fyrrverandi ráðherra í sömu ráðuneytum höfðu einnig hafnað áformunum.

Truell hafði krafist þess að bresk yfirvöld samþykktu verkefnið og skilgreindu fyrirtækið Atlantic Superconnection, sem heldur utan um verkefnið, sem erlendan raforkuframleiðanda. Þannig yrði fyrirtækinu gert kleift að selja raforku á niðurgreiddu verði.

Truell hefur áður greint frá því að búið væri að tryggja vilyrði fjárfesta fyrir 2,5 milljörðum punda til þess að fjármagna verkefnið.

Ekkert varð af fyrirhuguðum kaupum DC Renewable Energy, sem er í eigu Truell, á eignarhlut ORK-sjóðsins í HS Orku eins og greint var frá í Markaðinum. Félagið hafði gengið frá samkomulagi við ORK í byrjun október í fyrra en kaupin voru hins vegar aldrei endanlega frágengin þar sem Truell tókst ekki að ljúka fjármögnun vegna viðskiptanna.

Samlagshlutafélagið Jarðvarmi, sem er í eigu fjórtán lífeyrissjóða, gekk hins vegar frá kaupum á eignarhlutinum í vor.