Töluverð fjölgun á milli ára var í framboðum sem bárust tilnefningarnefndum skráðra félaga í Kauphöllinni. Fjölgun framboða skilar sér þó ekki á kjörseðla á aðalfundum nema að litlu leyti, enda draga flestir framboð sín til baka ef þeir hljóta ekki tilnefningu.

„Fólk er ekki endilega að sækjast eftir því að fara í kosningabaráttu og taka slaginn á aðalfundi,“ segir Elín Jónsdóttir, stjórnarformaður Borgunar, en hún sat í tilnefningarnefnd fasteignafélagsins Reita síðustu tvö ár.

Markaðurinn hefur tekið saman hversu mörg framboð bárust tilnefningarnefndum í aðdraganda aðalfunda á þessu ári og hversu mörg framboð rötuðu að lokum á kjörseðla. Samantektin sýnir töluverða fækkun frambjóðenda. Þannig bárust tilnefningarnefnd VÍS 18 framboð, en aðeins átta stóðu eftir á aðalfundi tryggingafélagsins. Tilnefningarnefnd Sjóvár bárust fjórtán framboð, en fimm frambjóðendur drógu framboð sín til baka eftir að hafa fengið vitneskju um að þeir væru ekki tilnefndir.

Tafla.PNG

Sömu sögu er að segja um fasteignafélögin Reiti, þar sem frambjóðendum fækkaði úr þrettán í fimm fram að aðalfundi, og Regin þar sem frambjóðendum fækkaði úr tíu í fimm. Þeir sem ekki hlutu tilnefningu óskuðu allir nafnleyndar og drógu framboð sín til baka.

„Margir vilja einungis gefa kost á sér ef nafnleyndar er gætt og ef þeir eiga völ á því að geta dregið framboðið til baka, komist þeir ekki á framboðslista tilnefningarnefndar,“ segir Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækisins Hagvangurs og formaður tilnefningarnefndar Sjóvár og situr hún einnig í tilnefningarnefnd Skeljungs. Hún tekur fram að framboðslisti tilnefningarnefndar sé lagður fram að lokinni ítarlegri yfirferð og mati á framboðum sem hafa borist. Oftast sé farið eftir áliti nefndarinnar en þó séu dæmi um að niðurstaða í stjórnarkjöri hafi orðið önnur en tillaga nefndarinnar hljóðaði uppá.

Sem dæmi um fjölgun framboða til tilnefninganefnda má nefna að framboðum til nefndar VÍS fjölgaði úr sex í 18 á milli ára, framboðum til nefndar Sjóvár fjölgaði úr sjö í fjórtán og framboðum til nefndar Reita fjölgaði úr átta í þrettán.

Einfaldari þreifingar

Aðalfundur Eikar fasteignafélags verður haldinn 10. júní og hefur tilnefningarnefnd félagsins lagt til að stjórn þess verði óbreytt. Nefndinni bárust 14 framboð, en flestir af þeim frambjóðendum sem nefndin ræddi við svöruðu því til að „þeir myndu draga framboð sitt til baka ef þeir væru ekki tilnefndir til stjórnarsetu,“ eins og það er orðað í skýrslu nefndarinnar.

„Mín reynsla er sú að flestir frambjóðendur eru að þreifa fyrir sér og athuga hvort þeir komi til greina,“ segir Elín. Síðan taki við athugun nefndarinnar á því hverjar þarfir félagsins séu og hver sé æskileg samsetning stjórnar.

„Ef niðurstaða tilnefningarnefndar er sú að reynsla og þekking frambjóðenda falli ekki vel að þörfum félagsins, eða að þeim þörfum sé fullnægt með núverandi stjórn, dregur fólk gjarnan framboð sitt til baka.“

Elín Jónsdóttir, stjórnarformaður Borgunar.

Elín segir að framboð til tilnefningarnefnda, og afturköllun þeirra, séu ákveðin formfesting á því sem var, áður en nefndunum var komið á fót. Þá hafi fólk leitað til stærstu hluthafa viðkomandi félags til þess að athuga með möguleika á að komast í stjórn og hætt við framboð ef það fann lítinn stuðning.

„Þetta er einfaldara ferli fyrir frambjóðendur að því leyti að þeir þurfa einungis að leita til einnar nefndar í stað margra hluthafa. Og það er faglegra að því leyti að niðurstaða nefndarinnar tekur tillit til þarfa félagsins og samsetningar stjórnar,“ bætir Elín við.

Flestir eiga erindi

Sem dæmi um fjölgun á milli ára í framboðum til tilnefningarnefnda, má nefna að framboðum til nefndar VÍS fjölgaði úr sex í 18 á milli ára, framboðum til nefndar Sjóvár fjölgaði úr sjö í fjórtán og framboðum til nefndar Reita fjölgaði úr átta í þrett­án.

Lesa má úr skýrslum nefndanna að fátt sé um tilhæfulaus framboð. Þannig segir í skýrslu tilnefningarnefndar VÍS að allir 18 frambjóðendur hafi verið vel hæfir og nefndarmenn Reita skrifa að frambjóðendurnir þrettán hafi allir verið með víðtæka menntun, reynslu og þekkingu.

Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs.
Ljósmynd/Hagvangur

„Flestir hafa ástæðu til þess að bjóða sig fram og geta átt erindi í aðrar stjórnir þó að bakgrunnur þeirra og reynsla henti ekki ákveðnu fyrirtæki á tilteknum tímapunkti,“ segir Katrín hjá Hagvangi. Katrín telur að framboðum til stjórna hafi fjölgað með tilkomu tilnefningarnefnda þar sem nefndirnar auglýsi og leiti eftir frambjóðendum. Auk þess sé yngra fólk reiðubúnara en áður að gefa kost á sér til stjórnarsetu.

„Ég á frekar von á að framboðum eigi bara eftir að fjölga þegar fram í sækir,“ bætir Katrín við. „Oft sat sama fólkið í mörgum stjórnum en nú þykir það ekki æskilegt vegna þess að stjórnarstörf í skráðum fyrirtækjum eru heilmikil vinna. Að setjast í slíkar stjórnir kallar á talsverða undirbúningsvinnu fyrir öflugan stjórnarfund í hverjum mánuði þar sem stjórnarfólk þarf að vera vel undirbúið, virkt og hafa nægan tíma. Þetta er orðið miklu umfangsmeira starf en áður var.“