Skúli Mogensen og aðrir fyrrverandi lykilstjórnendur WOW air, sem munu mynda framkvæmdastjórn í nýju flugfélagi sem þeir hyggjast reisa á grunni WOW air, munu taka á sig þrjátíu prósenta launalækkun á fyrsta rekstrarári nýja félagsins.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í fjárfestakynningu sem Skúli, sem stofnaði WOW air árið 2011, hefur látið útbúa um nýja lággjaldaflugfélagið og Fréttablaðið hefur undir höndum.

Gert er ráð fyrir því, samkvæmt kynningunni, að þeir fyrrverandi lykilstarfsmenn WOW air sem munu koma að stofnun nýja félagsins eignist 51 prósents hlut í því á meðan þeir fjárfestar sem leggja félaginu til 40 milljónir dala, jafnvirði um 4,8 milljarða króna, fari með 49 prósenta hlut.

Eins og greint var frá á vef Fréttablaðsins fyrr í dag leitar félagið nú 40 milljóna dala fjármögnunar til þess að standa straum af rekstrinum þar til lausafjárstaða þess verður orðin jákvæð á öðrum fjórðungi næsta árs.

Skúli Mogensen verður forstjóri flugfélagsins en með honum í framkvæmdastjórn munu sitja flestir fyrrverandi framkvæmdastjórar WOW air. Þó er Stefán Sigurðsson, fyrrverandi fjármálastjóri WOW air, ekki á þeim lista.

Nánar tiltekið er gert ráð fyrir að stjórnendur nýja félagsins verði, auk Skúla, þau Sveinn Ingi Steinþórsson, sem verður fjármálastjóri félagsins, Jónína Guðmundsdóttir, Arnar Már Magnússon, Daníel Snæbjörnsson, Snorri Pétur Eggertsson, Páll Borg og Svanhvít Friðriksdóttir, eftir því sem fram kemur í fjárfestakynningunni.

Félagið, sem hyggst reka harða lággjaldastefnu í líkingu við þá sem WOW air rak á fyrstu árum þess, stefnir að því að fá flugrekstrarleyfi á þeim forsendum að það sinni fyrstu vikurnar leiguverkefnum fyrir stórt evrópskt flugfélag, því takist að kaupa helstu eignir úr þrotabúi WOW air, þar á meðal vörumerkið, það nái samkomulagi við leigusala um rekstur á fimm flugvélum og enn fremur að félaginu takist að sækja sér nægt fjármagn til þess að hefja starfsemi.

Í fjárfestakynningunni eru jafnframt dregnar upp afar bjartsýnar sviðsmyndir um mögulega ávöxtun þeirra fjárfesta sem eru reiðubúnir til þess að leggja félaginu til fé. Þannig er tekið fram að umræddir fjárfestar geti fengið 43 til 50 prósenta árlega ávöxtun af fjárfestingu sinni ef áform forsvarsmanna félagsins ganga að öllu leyti eftir og hluthafarnir selja hlut sinn í apríl árið 2021.

Er þá gert ráð fyrir að rekstraráætlun flugfélagsins til næstu ára heppnist og að EBITDAR - afkoma þess fyrir afskriftir, fjármagnsliði, leigu og skatta - verði 68,5 milljónir dala árið 68,5 milljónir dala en í útreikningunum er miðað við verðkennitölur annarra alþjóðlegra lággjaldaflugfélaga.