Tæknirisinn Apple hefur varað við töfum á nýjum snjallsímum eftir að stærstu iPhone-verksmiðju í heimi var lokað sökum Covid-19.

Taívanska fyrirtækið Foxconn, sem rekur verksmiðjuna, sér um 70 prósent útflutnings iPhone-síma í heiminum.

Snjallsímaverksmiðjan, sem staðsett er í Zhengzhou í Kína, neyddist til að hætta starfsemi eftir að yfirvöld settu útgöngubann í umdæmi verksmiðjunnar þann 2. nóvember. Ákvörðunin er í samræmi við „Ekkert-Covid“ stefnu stjórnvalda sem hefur haft gríðarleg áhrif á framleiðslugetu landsins.

Xi Jinping, forseti Kína, styður stefnuna og hafa yfirvöld í mörgum kínverskum borgum beitt stefnunni óspart undanfarna mánuði.

Til að mynda var Disney-þemagarðinum í Sjanghaí skyndilega lokað í síðustu viku og fengu gestir ekki að yfirgefa garðinn fyrr en þeir höfðu fengið neikvæðar niðurstöður úr skimun.

Viðskiptavinir okkar munu að öllum líkindum þurfa að bíða lengur eftir að fá vörur sínar afhentar.

Tilkynningin er líkleg til að valda þeim fjárfestum vonbrigðum sem vonuðust til að stjórnvöld myndu milda stefnu sína sem hefur breytt jafnvel stærstu borgum landsins í draugabæi.

Í tilkynningu frá Apple segir að fyrirtækið vilji forgangsraða heilsu og öryggi starfsmanna, og hefur það verið stefnan alveg frá því að faraldurinn byrjaði.

„Það er mikil eftirspurn eftir iPhone 14 Pro og iPhone 14 Pro Max. Hins vegar búumst við nú við færri sendingum en við gerðum ráð fyrir og munu viðskiptavinir okkar að öllum líkindum þurfa að bíða lengur eftir að fá vörur sínar afhentar.“

Taívanska fyrirtækið Foxconn, sem rekur verksmiðjuna, segist vinna hörðum höndum með yfirvöldum í Henan-héraði til að útrýma veirunni og hefja framleiðslu aftur eins fljótt og hægt er.