Greiddar gistinætur á öllum tegundum gististaða í október 2021 nærri sjöfölduðust samanborið við október árið á undan. Þar af rúmlega nífölduðust þær á hótelum og fjórfölduðust á gistiheimilum og öðrum tegundum skráðra gististaða (íbúðagisting, orlofshús o.s.frv.). Í samanburði við október 2019 hefur gistinóttum hins vegar fækkað um 16 prósent. Þar af nemur fækkunin um 13 prósent á hótelum, 34 prósent á gistiheimilum og 11 prósent á öðrum tegundum gististaða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni.

Heimild: Hagstofan.

Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 551.000 í október en þær voru um 84.000 í sama mánuði árið áður. Íslenskar gistinætur voru um 27 prósent gistinátta eða um 146.000 en voru 50.000 í fyrra. Um 73 prósent gistinátta voru erlendar eða um 405.000 en voru 34.000 fyrir ári síðan. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 424.000 (þar af 360.300 á hótelum) og um 127.000 á öðrum tegundum skráðra gististaða (íbúðagisting, orlofshús o.s.frv.).

Heimild: Hagstofan.

Framboð hótelherbergja í október jókst um 44 prósent frá október 2020. Herbergjanýting á hótelum var 62,2 prósent og jókst um 51,4 prósentustig frá fyrra ári.

Gistinætur á hótelum í október voru 360.300 og jókst hótelgisting í mánuðinum í öllum landshlutum. Mest var hlutfallsleg aukning á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi. Gistinætur Íslendinga voru 94.900, eða 26 prósent af hótelgistinóttum, á meðan erlendar gistinætur voru 265.000 eða 74 prósent.

Á tólf mánaða tímabili, frá nóvember 2020 til október 2021, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 2.052.000 sem er 1 prósent fækkun frá sama tímabili ári áður. Aukning var í öllum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu þar sem gistinóttum fækkaði um 22 prósent.