TM hagnaðist um 347 milljónir króna á fjórða fjórðungi síðasta árs, samkvæmt uppgjöri tryggingafélagsins sem birt var eftir lokun markaða síðdegis í dag. Hagnaðurinn stendur nánast í stað á milli ára.

Afkoma félagsins af vátryggingastarfsemi var hins vegar talsvert verri en á sama tíma árið áður en til marks um það var samsett hlutfall 108,7 prósent á ársfjórðungnum borið saman við 100,3 prósent á fjórða fjórðungi ársins 2018. Rekstrarspá félagsins gerði ráð fyrir að samsett hlutfall yrði 97 prósent á tímabilinu.

Í afkomutilkynningu TM er tekið fram að verri afkoma af vátryggingastarfsemi hafi einkum skýrst af óhagstæðri þróun í eignatryggingum, skipatryggingum og ökutækjatryggingum.

Fjárfestingatekjur tryggingafélagsins námu 847 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi síðasta árs en það jafngildir 2,6 prósenta ávöxtun. Til samanburðar hækkaði markaðsvísitala GAMMA um 2,2 prósent á tímabilinu.

Í tilkynningunni segir að mjög góð afkoma hafi verið af óskráðum hlutabréfum, skráðum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum á fjórðungnum en hins vegar hafi ríkisskuldabréf skilað slakri ávöxtun.

Fjárfestingatekjur voru töluvert umfram væntingar á fjórða fjórðungi en spá félagsins gerði ráð fyrir tekjum upp á 396 milljónir króna. Munar þar mest um afkomu skráðra og óskráðra hlutabréfa.

Á fjórðungnum gerði TM miklar breytingar á eignasafni sínu vegna greiðslu á kaupverði Lykils í upphafi þessa árs. Félagið seldi eignir í flestum eignaflokkum, að því er segir í tilkynningunni, en vægi skráðra hlutabréfa í safninu minnkaði mest. Um áramótin var því staða handbærs fjár óvenju há.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, segir í tilkynningunni að heilt yfir hafi árið 2019 verið nokkuð gott. Afkoma félagsins hafi batnað verulega á milli ára.

„Jafnvægið á milli vátryggingastarfsemi og fjárfestingastarfsemi er þó ekki nógu gott. Ávöxtun fjárfestingaeigna var 10,1 prósent á meðan samsett hlutfall var 101,9 prósent. Væntingar um samsett hlutfall undir 100 prósent urðu að engu þegar hvort tveggja stærri tjón og óveður settu strik í reikninginn á fjórða ársfjórðungi,“ nefnir Sigurður.

Hann segir auk þess að með kaupum TM á Lykli, sem gengu í gegn í byrjun ársins, opnist fjölmörg spennandi tækifæri. Grundvöllur skapist til þess að breikka framboð á vörum og þjónustu til viðskiptavina samstæðunnar.