„Öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins mæta á UTmessuna og taka þátt með einum eða öðrum hætti. Á viðburðinum sést vel fjölbreytileiki upplýsingatækninnar og þar kemur berlega í ljós að allir hafa möguleika á að starfa í tölvugeiranum,“ segir Snæbjörn Ingi Ingólfsson, formaður Ský sem er félag fólks og fyrirtækja í upplýsingatækni sem stendur að baki viðburðinum.

„Starfssviðið er bæði breitt og fjölbreytt og hentar bæði konum og körlum. Þetta er spennandi geiri en samt sem áður er mjög mikill skortur á sérfræðingum í upplýsingatækni á Íslandi. Nú ekki alls fyrir löngu voru 70 störf í upplýsingatækni auglýst á Alfreð.“

Snæbjörn segir útflutningstekjur hugverkaiðnaðar á Íslandi hafa numið 192 milljörðum króna á síðasta ári eða 16 prósentum af útflutningstekjum íslenska þjóðarbúsins samkvæmt tölum frá Samtökum iðnaðarins. Hann bætir við að tekjurnar hafi nær tvöfaldast á innan við einum áratug.

Skapa verðmæti og auðga líf Íslendinga

Syndis fékk Upplýsingatækniverðlaun Ský á síðasta ári. Verðlaunin afhenti forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson. „Þetta eru heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi. Það er gaman að segja frá því að Guðni forseti hefur sýnt verðlaununum mikinn áhuga og verið með okkur og afhent þau síðustu ár.“

Snæbjörn segir að hægt sé að tilnefna einstakling, fyrirtæki eða verkefni sem hefur skarað fram úr á sviði upplýsingatækni, eitthvað sem hefur einfaldað líf okkar eða jafnvel gert það skemmtilegra, með hagnýtingu á upplýsingatækni. Áhersla er lögð á að framlagið hafi þegar sannað sig með afgerandi hætti.

Árlega skipar stjórn Ský valnefnd sem hefur sérþekkingu og reynslu á sviði upplýsingatækni. Valnefnd samanstendur af tveimur síðustu heiðursverðlaunahöfum, fulltrúa háskóla og fulltrúa stjórnar Ský, auk starfandi framkvæmdastjóra félagsins.

„Valnefndin velur síðan þann aðila sem þykir skara fram úr í hverjum flokki og þarf að rökstyðja það vel. Til viðbótar við UT-verðlaunin er hægt að tilnefna til nokkurra aukaflokka og er miðað við afrek á liðnu ári,“ segir Snæbjörn enn fremur.