Bandaríska fjármálafyrirtækið Citigroup mun ef að líkum lætur segja upp um helmingi af þeim 20 þúsundum sem starfa við upplýsingatækni og rekstur í fjárfestingabankaarmi fyrirtækisins á næstu fimm árum. Ástæðuna má rekja til þess að tæknin mun koma í stað starfsfólks hraðar en búist var við. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Þessi spá Jamies Forese, framkvæmdastjóra hjá fjárfestingabankanum, var sú sem gekk hvað lengst á meðal stjórnenda fjárfestingabanka sem Financial Times ræddi við. Næstum tveir fimmtu starfsmanna fjárfestingabankasviðs Citigroup vinna við rekstur bankans. Hann sagði að þau störf væru vel til þess fallin að tölvur tækju við þeim.

Áður hefur þáverandi forstjóri Deutsche Bank, John Cryan, sagt að allt að helmingur af starfsmönnum þýska bankans gæti þurft að víkja fyrir tölvutækninni.

Tim Throsby, forstjóri fjárfestingabankasviðs Barclays, sagði að í framtíðinni myndu færri starfsmenn afla meiri tekna samhliða því að tölvutækni tæki yfir störf sem væru minna virði. „Ef starf þitt felst í að hamra á lyklaborð eru minni líkur á að gæfan verði með þér í framtíðinni,“ sagði hann.

Richard Gnodde, forstjóri Goldman Sachs International, sagði að tæknin hefði tekið yfir fjölmörg verkefni og að þeirri vegferð myndi ekki ljúka í bráð. Það sáu þó ekki allir stjórnendur fjárfestingabanka fram á aukin tækifæri til hagræðingar með bættri tölvutækni. Samir Assaf, framkvæmdastjóri hjá HSBC, sagði að það væri ekki mikið af störfum eftir þar sem tæknin gæti komið í stað bankamanna í fjárfestingabankanum. Frá sjónarhóli áhættustýringar sé ekki hægt að skera mikið meira niður. Mögulega fimm til tíu prósent á næstu fimm árum.

Gnodde áréttaði að tæknin gæti skapað ný viðskiptatækifæri og að lokum ný störf. Hann tók sem dæmi netbanka Goldman Sachs sem sé eingöngu á netinu.

Forese sagði að bankinn myndi ráða starfsfólk á öðrum sviðum eins og í sölu og greiningum. Störf sem fólk innir af hendi muni taka breytingum.helgivifill@frettabladid.is