Við sjáum nú samstarfslausnir sem lykilinn að því að vaxa hratt á næstunni, segir Ragnar Sigurðsson, forstjóri og stofnandi AwareGO, í samtali við Markaðinn. AwareGO, sem framleiðir efni og þróar kennsluhugbúnað fyrir netöryggi, lauk nýverið 200 milljóna króna fjármögnun en á síðasta eina og hálfa árinu hefur fyrirtækið tryggt sér samtals 360 milljónir króna. Eyrir Ventures, sem fjárfesti upphaflega í félaginu um mitt ár 2018 og er stærsti hluthafinn, tók þátt í síðustu fjármögnunarumferð ásamt Kviku banka.

„Við klárum líklega aðra eins fjármögnun á næstu mánuðum og síðan er stefnan sett á svokallaða „series A“ fjármögnun sem verður mun stærri,“ segir Ragnar. Hins vegar muni hluthafar bíða eftir að ástandið á mörkuðum batni, en það gefi um leið nýjum áherslum félagsins tækifæri til að sanna sig.

AwareGO, sem var stofnað árið 2007, hefur verið í mjög miklum vexti síðastliðin tvö ár. Ein ástæðan er sú að innleiðing persónuverndarlaganna GDPR skyldaði fyrirtæki til að huga betur að öryggismálum.

Þá hefur AwareGO, sem áður lagði áherslu á beina sölu gegnum netið, opnað var fyrir samstarfslausnir. Stórum þjónustufyrirtækjum í upplýsingatækni býðst nú að tengjast hugbúnaðinum og nýta efnið til endursölu til sinna viðskiptavina. Eloomi, leiðandi kennsluhugbúnaðarfyrirtæki á Norðurlöndum, er til dæmis einn af nýjum samstarfsaðilum og selur aðgang að myndböndum og efni AwareGO í gegnum eigin hugbúnað.

„Sumir af þessum tölvupóstum eru skrifaðir á það góðri íslensku að ég trúi ekki öðru en að einhverjir landar okkar séu viðriðnir.“

„Það eru aðeins tveir mánuðir síðan við hleyptum samstarfslausnum af stokkunum og í hverri viku síðan þá höfum við fengið 2-5 stórfyrirtæki í viðskipti sem eru hver með 100-300 viðskiptavini. Hver sala verður verðmætari og því getum við eytt meiri peningum í að afla viðskiptavina og vandað valið,“ segir Ragnar.

Hefur krafist mikillar þolinmæði í gegnum árin að finna réttu nálgunina í rekstrinum?

„Jú algjörlega, og fyrstu níu árin vorum við bara tvö í þessu, ég og Helga konan mín. Við erum búin að vaxa gífurlega hratt á síðustu tveimur árum og það sér ekki fyrir endann á því, en lykilatriði í því er að fá hæfileikaríkt fólk með í vegferðina. Þar höfum við verið mjög heppin,“ segir Ragnar.

Hakkarar þróa aðferðir sínar

Tap íslenskra fyrirtækja vegna netsvika hefur valdið gríðarlega miklu tjóni á undanförnum árum. Þekktustu tilfellin eru hjá Rúmfatalagernum og HS Orku, á síðasta ári, þar sem tjónið hljóp á hundruðum milljóna króna. Helsti áhættuþátturinn í netöryggismálum fyrirtækja nú til dags er starfsfólkið sjálft að sögn Ragnars.

„Vírusvarnaforrit eru orðin mjög þróuð en þau virka ekki ef starfsfólkið sjálft opnar fyrir óværunni. Þess vegna einbeita netglæpamenn sér í auknum mæli að því að blekkja fólk til að opna sýkt viðhengi og þar fram eftir götunum. Þannig geta þeir komist inn í tölvupóstsamskipti bókhaldsdeilda og náð að blekkja starfsfólk til að millifæra háar fjárhæðir á rangan viðtakanda, þegar þau halda að verið sé að greiða þekktum samstarfsaðilum,“ segir Ragnar.

hyperlapse - Led heima-1.jpg

Upphæðirnar eru orðnar svo háar að glæpamenn eru tilbúnir að leggja mikla vinnu í netsvikin svo að þau beri árangur.

„Þetta er orðinn stór iðnaður og hakkarar þróa aðferðir sínar, rétt eins og öryggissérfræðingar á hinum endanum. Ef þeir ætla að stela háum fjárhæðum leggja þeir mikla vinnu í að finna út hverjir eru í fyrirtækinu. Þeir brjótast jafnvel inn á póstkerfin fyrst til að greina orðaval fólks í tölvupóstsamskiptum. Þú þarft að vera með varnirnar á hreinu og að vera meðvitaður um að það gæti einhver hafa verið að fylgjast með tölvupóstum síðustu mánuði,“ segir Ragnar.

Íslendingar líklega viðriðnir

Þá verndar íslenska tungumálið ekki fyrirtæki eins og það gerði. Ragnar segir að þýðingavélar séu að verða sífellt fullkomnari og netglæpamenn nýti sér það. Mögulega fái þeir aðstoð Íslendinga.

„Sumir af þessum tölvupóstum eru skrifaðir á það góðri íslensku að ég trúi ekki öðru en að einhverjir landar okkar séu viðriðnir , þó að þeir séu kannski ekki höfuðpaurarnir. Þetta er ekki texti sem þú nærð að skrifa með Google Translate,“ segir Ragnar.