Nýsköpunarfyrirtækið Sundra vinnur að því að einfalda og sjálfvirknivæða efnismarkaðssetningu fyrir fyrirtæki.

Á bak við fyrirtækið standa þau Haukur Guðjónsson framkvæmdastjóri, Þórunn Jónsdóttir rekstrarstjóri og Magnús Þór Jónsson tæknistjóri. Þau eru reynslumikið teymi en samtals hafa þau yfir 50 ára reynslu af því að stofna og byggja upp fyrirtæki.

Haukur Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sundra, segir að mikil tækifæri og kostnaðarhagræði fyrir fyrirtæki sé fólgið í því að endurhugsa markaðssetningu.

„Markaðssetning yfir höfuð er búin að þróast mjög mikið á síðustu árum og þessar hefðbundnu auglýsingar eru ekki að skila sama árangri og hér einu sinni,“ segir Haukur og bætir við að með því að einbeita sér að markaðsefni sem skapar virði fyrir viðskiptavini geti fyrirtæki búið til betra samband við hugsanlega viðskiptavini og aðgreint sig frá samkeppninni.

„Það hefur sýnt sig að það kemur mjög vel út þegar fyrirtæki beita efnismarkaðssetningu, það er að segja skapi efni sem býr til virði fyrir fylgjendur. Þetta gætu til dæmis verið myndbönd sem deilt er á samfélagsmiðla, hljóðvörp, eða bloggfærslur sem deila með fylgjendum einhverjum fróðleik eða skemmtun.“

Haukur útskýrir að Sundra sé að þróa hugbúnað þannig að frumkvöðlar og fyrirtæki þurfi aðeins að taka upp eitt myndband og hugbúnaðurinn umbreyti síðan myndbandinu í allt það markaðsefni sem fyrirtækið þarf á að halda.

„Við breytum myndbandinu yfir í texta sem hægt er að nýta í bloggfærslur og tölvupósta. Síðan búum við til hljóðvarp út frá hljóðrásinni og svo sérsníðum við myndbönd fyrir hvern og einn samfélagsmiðil.“

Spurður um tilurð hugmyndarinnar segir Haukur að hún hafi kviknað út frá hans eigin reynslu.

„Ég fékk að kynnast því persónulega hvað þessi vinna var tímafrek og erfið. Ég var að eyða hátt í fimm klukkustundum í hverri viku við að búa til eitt markaðsefni og aðlaga það á alla miðlana. Ég reyndi að ráða utanaðkomandi til að sjá um þetta fyrir mig en það var virkilega óáreiðanlegt og dýrt. Út frá þessu kviknaði hugmyndin að Sundra og í dag get ég gert sömu vinnuna á fimm mínútum með Sundra og ég gerði áður á fimm klukkustundum.“

Sundra er eitt af þeim tíu fyrirtækjum sem taka þátt í Startup Supernova í ár. Haukur segir að með þátttökunni vonist hann til að bæta tengslanetið og fullmóta hugmyndina.

„Við vonumst til að hitta þessa flottu mentora og fá ráðgjöf og stuðning til þess að koma hugmyndinni að fyrirtækinu á næsta stig. Við erum nú þegar búin að fara á marga góða fyrirlestra og teymin sem taka þátt eru öll mjög flott. Það eitt að umgangast þau sparkar dálítið í rassinn á manni.“

Haukur segir að vara fyrirtækisins komi út á næstu vikum og fyrirtækið sé þegar komið með nokkra aðila til að prófa vöruna. Fyrirtækið stefni þó ekki á Íslandsmarkað heldur sé varan hugsuð fyrir fyrirtæki á erlendri grundu sem vilji markaðssetja sig á samfélagsmiðlum með því að selja sérþekkingu sína.

„Flest fyrirtæki eru ekki að nýta samfélagsmiðla, póstlista og markaðsmiðla með réttum hætti einfaldlega út af því að þau hafa ekki tímann í það. Lykillinn að árangri á öllum miðlum er að gefa út efni reglulega og okkar vara gerir þessum fyrirtækjum kleift að búa til markaðsefni með einföldum og hröðum hætti.“

Haukur segir jafnframt að fyrirtækið hafi fengið jákvæð viðbrögð frá þeim aðilum sem hafa prófað vöruna.

„Þetta lofar mjög góðu enn sem komið er en fram undan hjá okkur er áframhaldandi þróunarvinna í samstarfi við viðskiptavini.“