Hugvit, nýsköpun og tækni verða burðarásar í verðmætasköpun Íslendinga. Þetta er markmið starfsins í Vísindaþorpinu í Vatnsmýri eða Reykjavik Science City sem kynnt var formlega í nýju húsnæði Íslandsstofu í Grósku í gær. Markmið Vísindaþorpsins er að stuðla að því að Ísland verði eftirsóttur staður til rannsókna, þróunar og fjárfestinga, auk þess að laða erlend fyrirtæki og sérfræðinga til landsins.

Við athöfnina héldu erindi þau Jarþrúður Ásmundsdóttir, fag­stjóri hugvits, nýsköpunar og tækni hjá Íslandsstofu, Guðmundur Hafsteinsson, stofnandi og forstjóri Fractal5 og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.

Jarþrúður Ásmundsdóttir segir í samtali við Markaðinn að mikilvægt sé að Ísland fari að leggja áherslu á hugvit sem útflutningsgrein.

Jarðþrúður Ásmundsdóttir, fagstjóri hjugvits, nýsköpunar og tækni hjá Íslandsstofu.
Fréttablaðið/Ernir

„Reykjavík Science City er fyrsta alþjóðlega herferðin sem Íslandsstofa fer af stað með til að leggja áherslu á hugvit, nýsköpun og tækni sem útflutningsgrein,“ segir Jarþrúður og bætir við að miklir vaxtarmöguleikar felist í að leggja áherslu á hugvit.

„Það liggja fyrir gögn sem sýna það með óyggjandi hætti að þetta er einn helsti vaxtarmöguleiki íslensks hagkerfis og við bindum því miklar vonir við þetta verkefni. Við vonumst til þess að með þessu framtaki getum við markað Ísland sem land hugvits, nýsköpunar og tækni.“

Guðmundur Hafsteinsson, stofnandi og forstjóri Fractal5, segir í samtali við Markaðinn að um þessar mundir séu að eiga sér stað miklar breytingar.

Guðmundur Hafsteinsson, stofnandi og forstjóri Fractal5.
Fréttablaðið/Ernir

„Ég bjó í Kísildalnum í 15 ár og vann meðal annars hjá Google og Apple. Að sjálfsögðu var mjög gaman að upplifa það, en á sama tíma fórnaði ég lífsgæðum á móti. Maður eyddi til dæmis 3 tímum í umferð á hverjum degi,“ segir Guðmundur og bætir við að maður kunni ekki að meta Ísland fyrr en maður hefur prófað að búa erlendis og flytur síðan heim.

„Það sem ég áttaði mig á þegar ég flutti aftur heim var hvað lífsgæðin á Íslandi eru svakalega góð. Eftir að ég flutti hingað batnaði líf mitt heilmikið.Um þessar mundir eru að eiga sér stað miklar breytingar hvað varðar það að fólk getur í raun unnið hvar í heiminum sem er í gegnum heimavinnu. Þær breytingar hafa í för með sér að það er liðin tíð að Kísildalurinn, New York eða London þurfi að vera miðjan. Því um þessar mundir getur fólk einfaldlega leitað þangað sem lífsgæðin eru mest og þá er Reykjavík afar fýsilegur kostur. Aukin heimavinna er klárlega framtíðin.“

Vísindaþorpið ein af meginstoðum borgarinnar

Í Vatnsmýrinni hefur skapast frjór jarðvegur fyrir fyrirtæki sem drifin eru áfram af hugviti og segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Vísindaþorpið eina meginstoð borgarinnar í atvinnumálum.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Fréttablaðið/Ernir

„Við þurfum fjölbreytt atvinnulíf og öflugt þekkingarsamfélag er liður í samkeppnishæfni borgarinnar. Öðrum megin í borginni er að vaxa Þorp skapandi greina í Gufunesi og hinum megin erum við með Vatnsmýrina, sem samanstendur af framúrskarandi rannsóknum á sviði læknavísinda við Landspítalann, að Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík. Nú þegar eru starfandi framsækin og stöndug fyrirtæki eins og CCP, Decode og Alvogen, auk fjölda lítilla og meðalstórra sprotafyrirtækja, á sviði tækni og vísinda. Við erum staðráðin í að fjölga stórum og öflugum þekkingarfyrirtækjum á svæðinu og auka enn á gróskuna hjá minni fyrirtækjum og sprotum. Framtíðin er því björt í Vatnsmýrinni og hryggjarstykkið verður Vísindaþorpið sem við kynnum hér í dag,“ segir Dagur.

Störfum í hugverkaiðnaði fjölgaði um 14 prósent í miðjum heimsfaraldri

Markmið Reykjavík Science City er að styðja við vöxt í greinum tengdum hugviti, nýsköpun og tækni. Samkvæmt rannsókn Íslandsstofu á rekstrarumhverfi slíkra fyrirtækja kom í ljós að á árinu 2020 fjölgaði starfsgildum þar um 14% á sama tíma og heimsfaraldur Covid-19 gekk hér yfir, með tilheyrandi uppsögnum og atvinnuleysi.

„Segja má að Reykjavík sé eitt stærsta vörumerki Íslands og í kringum Vatnsmýrina hafa byggst upp einstakir innviðir í formi háskóla, rannsóknastofnana og þekkingarfyrirtækja. Við teljum okkur því eiga fjölmörg tækifæri að sækja í þessum efnum,“ segir Jarþrúður Ásmundsdóttir, fagstjóri hugvits, nýsköpunar og tækni hjá Íslandsstofu.

Í Vísindaþorpinu verði lögð áhersla á uppbyggingu svokallaðrar grænnar og blárrar tækni (e. Greentech og e. Bluetech) og lífvísinda, en Íslendingar hafi þegar aflað sér mikillar þekkingar á þeim sviðum og eiga þar inni öflug tækifæri.