Bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital, langsamlega stærsti hluthafi Arion banka um langt skeið, hefur samþykkt að selja tæplega sjö prósenta hlut í bankanum fyrir samtals um 11,4 milljarða króna. Þegar salan gengur í gegn mun sjóðurinn eiga rúmlega 16 prósenta hlut í Arion banka.

Taconic stefndi að því að selja allt að tíu prósenta hlut með tilboðsfyrirkomulagi (e. accelerated bookbuild offering), eins og Markaðurinn greindi frá síðastliðinn laugardag, en samkvæmt heimildum blaðsins samþykkti sjóðurinn fyrr í kvöld tilboð fyrir samtals 120 milljónir hluta að nafnverði á genginu 95 krónur á hlut.

Það er um fimm prósentum lægra gengi en þegar söluferlið á bréfum sjóðsins var sett af stað á föstudaginn fyrir helgi en þá stóð það í meira en 100 krónum á hlut.

Fjárfestar höfðu frest til klukkan sex í dag til að skila inn tilboðum í hlut Taconic en það voru Fossar markaðir sem voru ráðgjafar vogunarsjóðsins við söluna. Hlutabréfaverð Arion banka hækkaði um 1,16 prósent í 325 milljóna króna veltu í Kauphöllinni í dag.

Ekki fást staðfestar upplýsingar um hvaða fjárfestar keyptu hlutinn af Taconic en leitað hafði verið meðal annars til íslenskra lífeyrissjóða, verðbréfasjóða, fjárfestingafélaga og tryggingafélaga.

Taconic Capital kom fyrst inn í hluthafahóp Arion banka vorið 2017 þegar sjóðurinn, ásamt tveimur öðrum erlendum vogunarsjóðum og fjárfestingabankanum Goldman Sachs, keypti samtals nærri 30 prósenta hlut í bankanum af eignarhaldsfélaginu Kaupþingi fyrir um 49 milljarða króna.

Sjóðurinn bætti verulega við eignarhlut sinn í Arion banka árið 2019 þegar hann keypti samanlagt um þrettán prósenta eignarhlut í tveimur viðskiptum í apríl og júlí það ár. Seljandi bréfanna var eignarhaldsfélagið Kaupþing en gengið í þeim viðskiptum var annars vegar 72 krónur á hlut og hins vegar 75,5 krónur á hlut. Í júlí í fyrra minnkaði Taconic hlut sinn í bankanum þegar hann seldi - í fyrsta sinn frá því hann kom í hluthafahópinn - um 1,45 prósenta hlut fyrir 1.600 milljónir.