Bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital, sem hefur verið stærsti hluthafi Arion banka um langt skeið, heldur áfram að minnka við hlut sinn í bankanum en sjóðurinn seldi fyrr í þessum mánuði fyrir jafnvirði um 2,6 milljarða króna.

Samanlagt hefur Taconic þannig selt rúmlega tíu prósenta hlut – í þremur viðskiptum – frá því í lok janúar fyrir um 17 milljarða króna. Samkvæmt uppfærðum hluthafalista er sjóðurinn nú skráður fyrir 13,11 prósenta eignarhlut í Arion banka.

Taconic hóf að losa um hlut sinn í bankanum, eins og Markaðurinn hefur áður upplýst um, í síðasta mánuði þegar hann gekk frá sölu á tæplega sjö prósenta hlut þann 27. janúar síðastliðinn – 120 milljónir hluta að nafnverði – með tilboðsfyrirkomulagi fyrir samtals 11,4 milljarða. Viku síðar seldi sjóðurinn tæplega tveggja prósenta hlut – 30 milljónir hluta að nafnverði – fyrir nærri 3 milljarða króna.

Taconic hefur hins vegar haldið áfram að minnka við sig í bankanum en samkvæmt nýuppfærðum lista yfir stærstu hluthafa hefur sjóðurinn selt til viðbótar 24 milljónir hluta að nafnverði. Samkvæmt heimildum Markaðarins fór sú sala fram í þar síðustu viku á genginu 108 krónur á hlut fyrir sem fyrr segir jafnvirði um 2,6 milljarða króna.

Þá hefur annar bandarískur vogunarsjóður, Sculptor Capital Management, selt í Arion fyrir samanlagt um 16 milljarða króna frá því í byrjun desember á síðasta ári. Ajóðurinn, sem áður hét Och-Ziff Capital, var fyrir áður annar stærsti hluthafi bankans með tæplega 10 prósenta hlut en í þar síðustu viku kláraði hann sölu á síðustu bréfunum sem hann átti eftir í Arion.

Á sama tíma hafa eignarhaldsfélög og fjársterkir einstaklingar, meðal annars Mótás, Hvalur, Sjávarsýn og Stálskip, komið nýir inn í hluthafahóp Arion banka eða bætti við hlut sinn. Þá hafa sumir íslensku lífeyrissjóðanna, eins og meðal annars LSR, Almenni, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Festa og Brú, verið að auka við hlut sinn á síðustu vikum. Sjóðir í stýringu Akta, sem áttu samtals ríflega 0,6 prósenta hlut í Arion banka undir lok síðasta mánaðar, hafa sömuleiðis þrefaldað hlut sinn í Arion frá þeim tíma og eru núna á meðal stærstu hluthafa með tæplega 1,7 prósenta hlut.

Hlutabréfaverð Arion hefur hækkað mikið á undanförnum vikum en frá áramótum nemur hækkunin um 30 prósentum. Gengi bréfa bankans stendur nú í 123,5 krónum á hlut og er markaðsvirði hans um 214 milljarðar króna.

Bankinn skilaði ársuppgjöri sínu eftir lokun markaða miðvikudaginn 10. febrúar en þar kom meðal annars fram að hagnaður af áframhaldandi starfsemi á fjórða ársfjórðungi hafi numið rúmlega 8.100 milljónum króna. Hagnaður af allri starfsemi bankans var um 5.760 milljónir og arðsemi eigin fjár 11,8 prósent.

Þá tilkynnti Arion banki fyrr í þessum mánuði að Seðlabankinn hefði veitt bankanum heimild til kaupa á eigin bréfum fyrir um 15 milljarða. Það er talsvert hærri fjárhæð en fólst í tilmælum bankans um miðjan janúar til íslenskra fjármálafyrirtækja. Til viðbótar þeim endurkaupum hefur bankinn boðað arðgreiðslu til hluthafa upp á 3 milljarða króna.

Bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs hækkað verðmat sitt á Arion banka í síðstu viku um meira en þriðjung og metur nú gengi bréfa íslenska bankans á 150 krónur á hlut. Er fjárfestum ráðlegt að kaupa í bankanum en fyrri ráðgjöf var að halda bréfunum og verðmatsgengi upp á 112 krónur á hlut.